Þriðja vika Star Wars: The Rise of Skywalker á toppnum

Star Wars: The Rise of Skywalker, er á toppi bandaríska bíóaðsóknarlistans þriðju vikuna í röð, samkvæmt samantekt Wrap.is. Áætlaðar tekjur myndarinnar þessa helgina í Bandaríkjunum nema 34,5 milljónum dala, sem þýðir að heildartekjur kvikmyndarinnar eru komnar upp í 453 milljónir dollara í Bandaríkjunum frá frumsýningu.

John Boyega í Star Wars.

Tekjur myndarinnar yfir helgina eru aðeins lægri en greinendur höfðu spáð, en samt sem áður er myndin á góðri leið með að verða sjöunda Disney myndin frá árinu 2019 til að komast yfir einn milljarð dala í tekjur á heimsvísu. Heildartekjurnar nema nú 918 milljónum dala, en tekjur utan Bandaríkjanna námu 84 milljónum dala nú um þessa helgi.

Af öðrum kvikmyndum er það að segja að hrollvekju-endurræsingin The Grudge, sem framleidd er af Sam Raimi, náði 11,4 milljónum dala í kassann á þessari frumsýningarhelgi sinni í Bandaríkjunum, en myndin var einnig frumsýnd á Íslandi á föstudaginn.

Tekjur myndarinnar voru, samkvæmt The Wrap, samkvæmt væntingum, og myndin hefur náð upp í kostnað, sem var 10 milljónir dala.

Skriðið á hvolfi.

Myndin er þó verulegur eftirbátur hinnar upprunalegu The Grudge frá árinu 2004, en tekjur hennar á frumsýningarhelgi voru 39 milljónir dala. Þá voru tekjur framhaldsmyndarinnar, sem frumsýnd var árið 2006, 20,8 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni.

Að lokum má geta þess að Frozen 2 fer nú í dag sunnudag, fram úr Frozen 1, sem tekjuhæsta teiknimynd allra tíma, með 1.325 milljónir dala í tekjur.

Hér fyrir neðan er skjáskot af topp 10 í Bandaríkjunum nú um helgina, eins og hann er birtur á Boxofficemojo.