Táningsvarúlfar í safnaraútgáfum á Blu

Scream Factory í Bandaríkjunum mun gefa út safnaraútgáfur af „Teen Wolf“ (1985) og „Teen Wolf Too“ (1987) á Blu-ray næstkomandi sumar. Þessar myndir eru ekki þekktar fyrir mikil gæði en fyrsta myndin, sér í lagi, á sér hóp af fylgjendum og þessari kóngameðferð í háskerpu ber að fagna.

Tilvistarangist, feimni við stúlkur og slök frammistaða með körfuboltaliði sínu hrjáir Scott Howard (Michael J. Fox) en um leið og hann kemst að því að hann breytist af og til í varúlf vaxa vinsældir hans og körfuboltahæfni einnig.
Þrátt fyrir allt það flotta sem þetta nýtilfundna ástand færir honum þá skapar það einnig mörg önnur vandamál.

„Teen Wolf“ sló í gegn þegar hún var frumsýnd og var það eingöngu að þakka ótrúlegum vinsældum hins geðþekka Fox. Hún var fullkláruð á undan „Back To the Future“ (1985) en frumsýnd eftir að tímaflakksmyndin sló óvænt í gegn, en Fox naut einnig mikilla vinsælda fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum „Family Ties“ (1982-1989).

Myndin þykir ekkert sérstök en hún hefur margt við sig og er sárasaklaus skemmtun sem móðgar engan og fjallar um meinlausan varúlf sem notar nýfundinn styrk til að troða í körfu og heilla dömurnar. Svo held ég hreinlega að engum geti líkað illa við Michael J. Fox.

Sömu sögu er ekki að segja um framhaldið en í henni leikur Jason Bateman titilpersónuna sem er, eins og titillinn vísar skoplega í, einnig varúlfur á táningsaldri. Myndin þykir, og er, hreint hræðileg og nær engan veginn að kreista fram þann litla sjarma sem forveri hennar á til. Boðskapurinn um að hafa trú á og vera samkvæmur sjálfum sér, vera vinur vina sinna og standa uppi gegn kúgurum og öðrum er alltaf góður og gildur en myndin þarf að vera áhorfanleg í það minnsta. „Teen Wolf“ uppfyllir þau skilyrði en framhaldið ekki.

Það verður spennandi að sjá hvaða aukaefni Scream Factory galdrar fram en líklega verður Michael J. Fox fjarri góðu gamni þar sem hann hefur sagt að myndin sé ekki í uppáhaldi hjá honum. En hver veit; kannski hefur honum snúist hugur síðan þá. Það er þó ljóst að aukaefnið fyrir framhaldið þarf að vera freistandi ef salan á að vera einhver. Safnarar eru þó rétti markhópurinn en margir eiga erfitt með að láta eina duga þegar til eru tvær. Það er eðli (og bölvun) safnarans.