Zombieland á leið í sjónvarp?

Upphaflega átti uppvakningamyndin Zombieland að vera sjónvarpsþættir en vegna þess að höfundarnir og sjónvarpsstöðin voru ekki sama máli varðandi efni þáttarins voru þau áform lögð í salt og kvikmyndin gerð þess í stað síðar. Nú lítur út fyrir að upphaflega hugmyndin öðlist nýtt líf þar sem áhugi fyrir efninu hefur aukist síðan þættirnir The Walking Dead hófu göngu sína í sjónvarpi og sópað til sín fjölda áhorfenda- fyrsti þáttur seinni seríunnar sló áhorfsmet með 7.3 milljónir áhorfenda nú um helgina.

Zombieland halaði inn rúmar 100 miljónir dollara og var stuttu seinna talað um að gera framhaldið í þrívídd, en ekkert hefur heyrst síðan þá og ekkert framhald hefur verið staðfest. Hægt er að finna leifar af hvað upphaflega sjónvarpsserían hefði boðið upp á í kvikmyndinni, eins og ‘Zombie Kill of the Week’- hversu magnað hefði það verið að sjá nýjar og skemmtilegar hugmyndir fyrir að lúskra á banhungruðum uppvakningum í hverri viku? Samkvæmt viðtali við Vulture hjá New York Magazine höfðu höfundarnir farið með hugmyndina til CBS árið 2005, en „þeir gerðu það sem sjónvarpsstöðvar gera flestar, sem er að fjarlægja allt það góða,“ sagði framleiðandi Zombielands, Gavin Polone. Sjónvarpsstöðin SyFy sýndi þáttunum áhuga eftir það en fjármagnið var ekki til staðar.

Áform um framhaldsmynd eru talin vera ólíkleg vegna skipulags og launakrafa leikara fyrstu myndarinnar og er miðað við að þátturinn verði sýndur veturinn 2012 á sjónvarpsstöðinni Fox í framleiðlsu Sony Picture Television. Allt bendir til þess að þættirnir verði framhald af kvikmyndinni, en ekki endursögn á henni.