Logan – Lengd og langur söguþráður

Ofurhetjumyndin Logan, sem er lokamyndin í Wolverine bálknum frá Marvel, verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín 17. febrúar nk. Myndin er væntanleg í bíó hér á landi 3. mars nk. Til að létta biðina þá hafa nýjar upplýsingar nú bæst við, þar á meðal upplýsingar um lengd myndarinnar, og ítarlegur söguþráður.

Þessar upplýsingar koma fram í dagskrárbæklingi kvikmyndahátíðarinnar í Berlín, en þar er lengdin sögð vera 135 mínútur, sem þýðir að myndin er töluvert lengri en gerist og gengur.

Síðasta Wolverine mynd, The Wolverine, frá árinu 2013 var reyndar svipað löng, eða 136 mínútur.

Söguþráðurinn er eftirfarandi:

„Árið 2024 hefur fjöldi stökkbreyttra minnkað til muna, og X-Men flokkurinn hefur verið leystur upp. Logan, sem hingað til hefur haft þann eiginleika að geta læknað sig sjálfur, er nú smátt og smátt að missa þann eiginleika. Hann hefur snúið sér að flöskunni, og vinnur fyrir sér sem bílstjóri. Hann hugsar um Prófessor X sem er tekinn að reskjast, og felur hann frá umheiminum.

Dag einn kemur ókunnur kvenmaður og biður Logan um að aka stúlku að nafni Laura að kanadísku landamærunum. Í fyrstu neitar hann, en það kemur á daginn að Prófessor X hefur beðið lengi eftir henni. Laura býr yfir miklum kröftum, og líkist Wolverine að mörgu leiti. Á hælum hennar eru illir aðilar, sem vinna fyrir valdamikla stofnun, en ástæðan fyrir því að þeir eru á eftir henni, er að erfðaefni hennar inniheldur leyndarmál sem tengir hana við Logan. Nú hefst mikil eltingarleikur.

Í þessari þriðju Wolverine mynd þá eru ofurhetjurnar orðnar gamlar og þreyttar og glíma við hversdagsleg vandamál, eins og fjárhagsáhyggjur. Þreytulegur Logan neyðist til að spyrja sjálfan sig að því hvort að hann getur, eða vill, nota þá ofurkrafta sem hann á enn eftir, til góðs. Svo virðist sem þeir tímar sem X-menn gátu virkilega látið til sín taka, og notað ótrúlega hæfileika sína til að breyta gangi mála, séu liðnir.

Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: