Blue Jasmine fer víðar en Midnight in Paris

blue jasmineBlue Jasmine, nýjasta mynd Woody Allen, sem hlotið hefur afbragðs viðtökur hjá gagnrýnendum og almenningi síðan hún var frumsýnd í lok júlí sl., hefur nú þénað 9,9 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum. Myndin var frumsýnd í takmarkaðri dreifingu í fyrstu, en er nú um helgina að fara í mestu dreifingu sem Woody Allen mynd hefur fengið í Bandaríkjunum til þessa, eða á 1.200 bíótjöld.

Myndin, sem er með Cate Blanchett í aðalhlutverki, er ein best sótta mynd í takmarkaðri dreifingu í Bandaríkjunum þetta árið, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter, og minnir á velgengni Allen myndarinnar Midnight in Paris fyrir tveimur árum síðan, en hún var sýnd á 1.038 bíótjöldum þegar hún var í sem mestri dreifingu í Bandaríkjunum.

Blue Jasmine er 44. mynd Allen. Í myndinni leikur Blanchett konu sem telst til fína fólksins í samfélaginu í New York, en flýr heim til systur sinnar í San Fransisco þegar auðugur eiginmaður hennar lendir í fjárkröggum. Alec Baldwin, Sally Hawkins og Peter Saarsgard leika einnig aðalhlutverk.

Sýningarstöðum myndarinnar verður fjölgað upp í 1.200 nú um helgina eins og áður sagði, og mun keppa við myndir eins og The World’s End, You’re Next og The Mortal Instruments: City of Bones í miðasölunni vestra, þó þær myndir höfði reyndar meira til yngri áhorfenda. The Butler, toppmynd síðustu helgar, kemur hinsvegar til með að veita Blue Jasmine mikla samkeppni, enda eru þær taldar höfða til sama aldurshóps.