Will Ferrell gerir teiknimynd um Flintstone fjölskylduna

flintstones9f-4-webGamanleikarinn Will Ferrell og leikstjórinn Adam McKay áætla að gera nýja teiknimynd um Flintstone fjölskylduna.

Ferrell og McKay eiga saman farsælan feril að baki og hafa gert myndir á borð við Anchorman, Step Brothers og Talladega Nights. Á þessari stundu hafa þeir félagar aðeins verið staðfestir sem framleiðendur myndarinnar, en ekki er vitað hvort Ferrell ljái myndinni rödd sína.

Það kannast eflaust margir við persónurnar Fred, Vilmu og Barney úr sögunum um Flinstone fjölskylduna. Í sögunum er ærslafengnu gríni blandað saman við létta ádeilu. Sagan gerist í steinaldarbænum Bedrock fyrir mörg þúsund árum, en þrátt fyrir að fjölskyldan lifi á steinöld þá er hún með eindæmum ráðagóð og stundum nokkuð nýstárleg.

Það hafa verið gerðar ótal teiknimyndir og þættir um fjölskylduna. Steven Spielberg framleiddi m.a. leikna kvikmynd árið 1994, en þá fór leikarinn John Goodman með hlutverk Fred í kvikmyndinni The Flintstones. Myndin fékk þó að mestu leyti slæmar viðtökur.