Rushmore leikari látinn

Hinn afkastamikli leikari Seymour Cassel, sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Faces, og lék í myndum Wes Anderson, eins og til dæmis Rushmore, lést nú á sunnudaginn í Los Angeles úr Alzheimer sjúkdómnum. Hann var 84 ára.

Cassel með feitan vindil árið 1995.

Cassel var margreyndur leikari í sjálfstæðum kvikmyndum, og lék fjölda hlutverka fyrir leikstjóra eins og John Cassavetes og Anderson. Auk þess að leika Bert Fischer í Rushmore, þá lék hann í The Royal Tenenbaums og The Life Aquatic with Steve Zissou.

Cassel fæddist í Detroit 22. janúar árið 1935. Hann byrjaði ungur að leika fyrir Cassavetes, og fyrsta hlutverk hans var í fyrstu mynd Cassavetes, Shadows, frá árinu 1958. Hann lék á móti Cassavetes í Too Late Blues og The Webster Boys, og kom fram í The Lloyd Bridges Show í þættinum A Pair of Boots sem Cassavetes leikstýrði. Þá lék hann í sjónvarpsþáttum eins og
Twelve O’Clock High, Combat!, The F.B.I. og Batman.

Árið 1968 var Cassel tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir meðleik sem Chet í mynd Cassavetes Faces. Af öðrum myndum Cassavetes sem Cassel lék í má nefna Minnie and Moskowitz, The Killing of a Chinese Bookie og Love Streams.

Anderson hitti hann í gegnum leikstjórann Alexandre Rockwell, sem réði Cassell í In the Soup, en fyrir það hluverk fékk hann verðlaun á Sundance hátíðinni.

Af öðrum myndum má nefna Dick Tracy, Tin Men, Honeymoon in Vegas, Indecent Proposal og fyrstu myndina sem Steve Buscemi leikstýrði, Trees Lounge.

Cassel lætur eftir sig þrjú börn, Lisa Papciak, Matthew Cassel og Dilyn Cassel Murphy, sjö barnabörn og þrjú barna barnabörn.