Fjölbreytni höfðar mest til mín

Rúnar Rúnarsson er ungur og upprennandi kvikmyndagerðarmaður, en nýjasta mynd hans, Eldfjall (e. Volcano), hefur hlotið verðskuldaða athygli. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og verið valin á ýmsar kvikmyndahátíðir um gjörvallan heim ásamt því að vinna fjölmörg verðlaun, m.a. á spænsku kvikmyndahátíðinni SEMINCI. Eldfjall verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012. Í viðtali við Kvikmyndir.is sagðist Rúnar meðal annars vera til í að sjá ameríska endurgerð en bara ef ábyrgir aðilar stæðu að sögunni.

„Stundum er maður að drepa tíma og deifa huganum en stundum er maður að vonast til að víkka sjóndeildarhringinn,“ segir Rúnar svarandi spurningunni um hvað það er sem hann leitast eftir þegar hann sest niður til að horfa á góða mynd. „Kannski væri hægt að segja að maður vilji upplifa fingrafar leikstjórans, því að allar sögur hafa verið sagðar á einn eða annan hátt. Það eina sem skilur þær að er framsetning sögunnar,“ bætir hann við.

Rúnar segir að áhrifavaldar sínir úr bransanum séu ýmsir. „Virðing Andreas Dresen fyrir sögupersónum sínum og framsetning á þeim í Wolke 9, hið innra drama Bergmanns, myndbygging Lynne Ramsey í Ratcatcher og stuttmyndum hennar, sjónræn útkoma og samvinna Slawomir Idziak og Kieslowski og vinna og hugmyndir Tarkovsky með tíma eru allt áhrifavaldar mínir undanfarin ár sem ég hef sett í kokkteilhrista,“ segir Rúnar hress.

Velgengnin

„Það er er alltaf gaman þegar vel gengur og ekki laust við að maður sé voðalega montinn af öllum sem komu að myndinni,“ segir Rúnar aðspurður að því hvernig velgengni Eldfjalls leggst í hann. „Við erum búin að byggja upp gríðalega sérþekkingu hérna heima og fyrir vikið eigum við kvikmyndagerðarfólk sem stenst erlendum starfsbræðrum snúning og stundum gott betur. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig þessi hópur hefur brætt hjörtu allraþjóðakvikinda. Auðvitað eru Teddi og Magga þar í broddi fylkingar með sínum leik og einkar ánægjulegt að Teddi sé að sópa að sér leikaraverðlaunum fyrir frammistöðu sína.“

Rúnar segist sjálfur búinn að vera í ferðatösku undanfarna mánuði til að fylgja myndinni eftir og bætir hann við að það líti ekki út fyrir að sé
eitthvað lát á þvi. „Það er svo sem ekkert sérstakt að vera svona
mikið frá fjölskyldunni en þetta túlkast víst sem lúxusvandamál.“

Endurgerð í vinnslu?

Rúnar var spurður hvort hann myndi vilja sjá ameríska endurgerð á Eldfjalli þar sem slíkt er núna í mikilli tísku. „Ef að það yrði farið vel með söguna og ábyrgir aðilar stæðu á bakvið svona endurgerð þá er aldrei að vita,“ segir hann, „annars er nú þegar eitthvað svoleiðis svo sem á teikniborðinu. Það eru ekki það margar sögur skrifaðar fyrir aðalleika á þessum aldri þannig að það eru hákarlar á sveimi en þetta er annars á svo viðkvæmum stað að það er best að segja sem minnst.“

Rúnar segir að vinnan á myndinni hafi verið mikið ævintýri og tekið sinn tíma. Hann byrjaði að skrifa handritið áður en hann byrjaði í náminu, sem þýðir að myndin hefur verið blundandi í honum síðan í byrjun árs 2005. „Síðan var maður að garfa í þessu með námi og öðrum verkefnum,“ segir hann. „Tími getur verið svo afstæður. Ef að handritsvinnan, sem er tímalega séð afstæðust af öllu, er frádregin þá tók um það bil ár að gera myndina. Það er að segja frá því að fjármögnun hófst til frumsýningar. Þykir það frekar stuttur tími reyndar. Venjulegur fjármögnunartími er um það bil eitt og hálft ár, plús.“

Leikstjórar eru oft spurðir að því hvaða framleiðslustigi þeir eru hrifnastir af, t.d. handritsstiginu, tökunum eða eftirvinnslunni. Rúnari segist líða ósköp vel á öllum þrepunum. Hann segir að fjölbreytnin höfði best til sín. „Ég hef hingað til aldrei verið það lengi í sama þrepinu til að fá leið. Ekki skemmir fyrir að vita að handan við hornið er nýr kafli,“ segir hann.

Á döfinni

„Ég er að skrifa nýtt handrit í fullri lengd með aðalsöguhetju sem er um 13 ára aldurinn og reikna ég með að vera tilbúinn að fara í tökur sumarið 2013,“ segir Rúnar um það sem liggur framundan. „Annars er ég með önnur handrit á mismunandi stigum í skúffunni sem ég er alltaf öðru hvoru að garfa í og aldrei að vita nema að eitthvað af þeim endi í fanginu á öðrum leikstjórum. Einnig ætla ég mér að halda áfram að gera stuttmyndir, þannig að það er aldrei að vita hvort að maður geri eina slíka á næsta ári.“

Eldfjall er enn í sýningum í Bíó Paradís.