Diesel leitar að gulli

chronicles of riddick 3Vin Diesel finnst greinilega gaman að leika í hasarmyndum. Hann leikur nú þegar aðalhlutverk í tveimur hasarmyndaseríum, Fast and the Furious seríunni og Riddick seríunni, og nú gæti sú þriðja verið um það bil að detta inn; Soldiers of the Sun, eða Sólarhermenn, í lauslegri íslenskri þýðingu.

Samkvæmt The Hollywood Reporter vefmiðlinum þá myndi Diesel framleiða og leika aðalhlutverkið í þessari mynd sem Universal kvikmyndaverið ætlar að gera eftir handriti Arash Amel, sem skrifaði Grace of Monaco. 

Myndin á að gerast í fjarlægri framtíð eftir að miklar hamfarir hafa orðið á jörðinni. Aðalhetjan, Diesel, er í flokki eitilharðra bardagamanna sem leita að gullborg, en þurfa að berjast við grimmar geimverur á leiðinni þangað sem kallast Orcs, eða Orkar.

Eins og The Hollywood Reporter kemur inn á þá vonast Universal til þess að búa til nýja framhaldsmyndaseríu úr þessari hugmynd en Diesel er orðinn sannkallaður gullkálfur í Hollywood og er nóg að benda á að síðasta Fast and the Furious mynd þénaði 780 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu!

Aðdáendur Diesel þufa þó að sýna biðlund, því kappinn hefur nóg að gera. Hann er nú að vinna að sjöundu Fast and the Furious myndinni og síðan tekur við The Last Witch Hunter. Þá er sterkur orðrómur um að hann muni leika í Marvel myndinni Guardians of the Galaxy. Þá er ekki ólíklegt að fleiri Riddick myndir verðir gerðar ef nýja Riddick myndin sem frumsýnd verður í næsta mánuði fær góðar viðtökur.