Nýtt tímaferðalag í heitum potti?

Þrátt fyrir að hafa ekki slegið í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum ( myndin þénaði alls 50 milljónir Bandaríkjadala í miðasölu í Bandaríkjunum og kostaði 36 milljónir í framleiðslu, og lenti í þriðja sæti á aðsóknarlistanum á opnunarhelginni á eftir myndunum How to Train Your Dragon og Alice in Wonderland, sem þá var á sinni fjórðu viku á lista ) þá eru menn nú samt að hugsa um að búa til framhald af gamanmyndinni Hot Tub Time Machine.

Þeir sem sáu þessa mynd geta verið sammála um að hugmyndin var skemmtileg, ýmsir fínir brandarar og leikarahópurinn var ekki af verri endanum ( John Cusack, Rob Corddry, Craig Robinson, Clark Duke og Chevy Chase).

The Hollywood Reporter vefsíðan segir frá því að þrír leikarar úr fyrri myndinni, (John Cusack er ekki þar á meðal ennþá) , hafi verið í viðræðum við MGM kvikmyndaverið um gerð framhalds, og segir að Corddry muni hugsanlega skrifa handritið með Steve Pink, leikstjóra fyrri myndarinnar, sem er einnig í viðræðum um að snúa aftur í Heita pottinn.

Heimildir THR herma að þessi hópur hafi verið að undirbúa myndina í leyni í nokkra mánuði, en þó sé ekkert öruggt ennþá hvort að af þessu verði.

Fyrri myndin var endurhvarf til níunda áratugar síðustu aldar, svokallaðs „eitís“. Þá er spurningin núna hvert tímavélin, heiti potturinn, fer með liðið næst. Gæti það orðið tíundi áratugurinn….. sem gæti þá endað með því að einhver þeirra félaganna myndi búa til Facebook! ( EKKI LESA EF ÞÚ ERT EKKI BÚIN/N  AÐ SJÁ FYRRI MYNDINA – fyrri myndin endaði á því að persóna Corddry „fann upp“ Google – eða Lougle eins og hann kallaði það og varð milljarðamæringur fyrir vikið.)

Í stuttu máli fjallar Hot Tub Time Machine um fjóra menn sem eru orðnir hundleiðir á stöðu sinni í lífinu, og ferðast aftur í tímann í heitum potti, og lenda á örlagaríku kvöldi unglingsára sinna á níunda áratug síðustu aldar.