Fótboltakvikmynd byrjaði á bar í Brussel

Hugmyndin af kvikmyndinni Síðustu áminningunni, sem frumsýnd verður í kvöld í Bíó paradís, varð til eftir að Guðmundur Björn Þorbjörnsson, sem þekktur er m.a. fyrir íþrótta-útvarpsþættina Markmannshanskarnir hans Alberts Camus á Rás 1, og Undir trénu leikstjórinn Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, mæltu sér mót á bar í Brussel í Belgíu. „Sigurjón Sighvatsson framleiðandi hafði haft samband við Hafstein um að gera heimildarmynd um landsliðið frá öðru sjónarhorni en gengur og gerist. Hafsteinn hafði þá nýlokið við að hlusta á útvarpsþættina mína, og setti sig í samband. Fyrsti fundur fór vel og við komumst fljótlega að niðurstöðu um hvernig við vildum gera þetta,“ sagði Guðmundur í samtali við Kvikmyndir.is.

Í kvikmyndinni er meðal annars leitað svara við spurningunni um það hvort að trú landsmanna á eigið ágæti sé reist á veikum grunni, en sé um leið þeirra sterkasta vopn.

Spurður um heiti myndarinnar, Síðasta áminningin, segir Guðmundur að það sé vísun í íslenska þjóðsönginn, sem sé síðasta áminningin sem leikmenn Íslands fá áður en þeir ætla sér að sigra útlendinga, sem eru miklu betri en þeir í fótbolta, eins og Guðmundur orðar það. „Við veltum því fyrir okkur hvort þeir séu að hlusta á þessa áminningu og taki hana nokkuð alvarlega.“

En fyrir hvern er þessi mynd?
„Hún er í raun fyrir þá sem hafa mjög mikinn áhuga á fótbolta, og alls engan. Ég held hún geti höfðað til margra. Við höfum öll áhuga á „íslenskri þjóðarsál“ og elskum að tala um okkur sjálf, hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Þessi mynd er engin undantekning. Svo er hún vonandi bara nokkuð skemmtileg.“

Nú þegar er áhugi fyrir því að sýna myndina erlendis, en á næstu dögum verður hún sýnd á ríkissjónvarpsstöðum Danmerkur og Noregs, DR og NRK.

Þeir sem vilja heyra meira um HM frá Guðmundi, til viðbótar við kvikmyndina, geta hlustað á umfjöllun hans fyrir RÚV í sjónvarpi og útvarpi.

Spurður að því að lokum hvort að von sé á fleiri fótboltakvikmyndum úr ranni þeirra Hafsteins, er svarið stutt og laggott: „Það gæti vel verið.“

Sem fyrr sagði verður heimildarmyndin frumsýnd í kvöld, en hér fyrir neðan er opinber söguþráður myndarinnar:

„Ísland er langminnsta þjóðin sem kemur liði inn á HM í fótbolta og hefur saga íslenska landsliðsins vakið heimsathygli. En getur verið, að krafturinn sem hefur gert þessa drengi að kraftaverkamönnum, sé sá sami og hefur orðið Íslendingum að fótakefli í gegnum aldirnar? Og getur verið, að trú landsmanna á eigið ágæti sé reist á veikum grunni, en sé um leið þeirra sterkasta vopn? Hvað geta leikmenn íslenska landsliðsins, og aðrir þjóðþekktir viðmælendur, sagt okkur um litla þjóð sem virðist þrá að heimurinn taki eftir sér?“