Sjónrænn Málmhaus undir Eyjafjöllum

Upptökur standa nú yfir á kvikmyndinni Málmhaus í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Myndin segir frá uppátækjasamri stúlku sem heitir Hera Karlsdóttir, leikin af Þorbjörgu Helgu Dýrfjörð. Hún á sér draum um að verða þungarokkstjarna en kemst að því að hún getur ekki flúið sjálfa sig endalaust.

Aðrir leikarar í myndinni eru Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hannes Óli Ágústsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir og Magnús Ólafsson.

Tökur fara fram á Fitjum undir Eyjafjöllum, en í myndinni heitir bærinn Svarthamar. Tökurnar eru núna um það bil hálfnaðar, en þeim ætti að ljúka 22. desember.

15 ára meðganga

Kvikmyndir.is ræddi við Ragnar Bragason um myndina, en hann sagðist vera búinn að ganga með hugmyndina að myndinni í maganum í 15 ár. „Ég var metalhead fram undir tvítugt, mikill þungarokksáhugamaður og fór mikið á erlendis á tónleika. Mig langaði til að gera eitthvað byggt á því. Svo kom sagan ekki fyrr en þessi hugmynd fæddist um stúlku sem bjó á kúabúi úti á landi sem dreymdi um að verða þungarokkstjarna,“ segir Ragnar Bragason.

Myndin byrjar árið 1983 þegar Hera er ellefu ára, en megnið af sögunni gerist hinsvegar árið 1992. Eins og fyrr segir fer Þorbjörg Helga með aðalhlutverkið.
Ragnar kynntist Þorbjörgu þegar hann var að kenna bekk í leiklistaskólanum fyrir nokkrum árum. „Ég áttaði mig strax á að hún hafði þetta „god-given-talent“ til að leika í kvikmyndum. Hún er líka sérstaklega dedicated leikkona. Hún hellti sér algjörlega í karakterinn og er búin að vera ár í rannsóknarvinnu með því að læra á gítar, heimsækja kúabú og hlusta á metaltónlist.

Ef ég ætti að skilgreina myndina núna, þó það eigi eflaust eftir að breytast við klippingu, þá er hún ögn dramatískari en það sem ég hef gert áður, mun meira visual og mikil stemmningarmynd. Hún reiðir sig ekki á samtöl eða mikinn leikstexta heldur er hún meira sjónræn,“ sagði Ragnar Bragason að lokum í samtali við Kvikmyndir.is

Söguþáður myndarinnar er þessi:

Árið 1970, á sama tíma og Black Sabbath taka upp sína fyrstu plötu, fæðist Hera Karlsdóttir á fjósgólfi á Svarthamri, litlu kúabúi úti á landi.

Í æsku er Hera uppátækjasöm og lífið í sveitinni áhyggjulaust þangað til hræðilegur harmleikur dynur á fjölskyldunni. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og kennir Hera sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún huggun í myrkri tónlistarstefnu og elur með sér draum um að verða þungarokkstjarna.

Árin líða undir svörtum hamrinum sem gnæfir yfir bænum. Hera æfir sig út í eitt á gítarinn, stofnar hljómsveit og er saga hennar samofin sögu þungarokksins.

Hera er uppreisnagjarn, óþreyjufullur og misskilinn vandræðaunglingur á þrítugsaldri sem dreymir um hinn stóra heim og er sífellt á leiðinni í burtu en er föst á æskuslóðunum. Hún kemur sér endalaust upp á kant við umhverfi sitt og sveitunga, foreldrum sínum til mikillar armæðu sem skilja ekki hvað gengur að henni. 

Æskuvinur hennar Knútur – sem snýr aftur í sveitina eftir dvöl í bændaskóla og ætlar að taka við búi af foreldrum sínum – hefur verið ástfanginn af henni alla sína ævi. Hann dreymir um að þau verði hjón og fari að búa en Hera hefur önnur áform og þegar nýr prestur flytur í sveitina fara örlagahjólin að snúast.   

Hera þarf að kljást við að fullorðnast, finna eigin rödd og komast að því að maður getur ekki flúið sjálfan sig endalaust.

Áætlað er að frumsýna Málmhaus haustið 2013.