Ný vél í Laugarásbíói sýnir Hobbitann í HFR 3D

Fyrsta Hobbitamyndin af þremur verður frumsýnd á annan í jólum. Einhverjar efasemdir hafa verið um nýja rammafjöldann sem Peter Jackson leikstjóri notaði við upptökurnar, en frá því elstu menn muna hafa bíómyndir verið teknar upp og sýndar á 24 römmum á sekúndu. The Hobbit: An Unexpected Journey mun hinsvegar verða fyrsta kvikmyndin sem sýnd verður á 48 römmum á sekúndu, eða HFR (High Frame Rate).

Sýnishorn úr myndinni var sýnt fyrir nokkrum mánuðum og fannst mörgum áhorfendum útkoman taka kvikmyndasjarmann úr myndinni. Peter Jackson útskýrði þá að fólk myndi venjast þessu, svipað og þegar fyrstu háskerpu (HD) sjónvörpin komu þá fannst manni myndin eiginlega of skýr.

Fyrstu sýningar 12. 14. desember

Myndin var frumsýnd 28. nóvember í Nýja Sjálandi og eftir hana er nokkurnveginn búið að staðfesta það sem Peter Jackson sagði – fólk var almennt mjög ánægt með útkomuna. En stóru spurningunni er ennþá ósvarað, munu Íslendingar fá tækifæri til að upplifa Hobbitann í HFR?

Kvikmyndir.is átti stutt spjall við Geir Gunnarsson markaðsstjóra hjá Myndformi, sem staðfesti að ný sýningavél í Laugarásbíó getur sýnt HFR 3D og það muni að sjálfsögðu verða gert þegar Hobbitinn verður sýndur hér á landi. Önnur bíó muni hinsvegar sýna myndina annað hvort í venjulegu 3D eða 2D.

Myndin verður frumsýnd á annan í jólum eins og fyrr segir, en einhverjar forsýningar verða fyrir jól. „Líklega verða fyrstu sýningar í kringum Bandaríkjafrumsýninguna 12. -14. desember. Forsala hefst vonandi núna á föstudaginn,“ sagði Geir Gunnarsson við kvikmyndir.is

Sjáið stikluna hér fyrir neðan: