Sníkjudýr unnu fyrir tómum sal

Það var heldur lítið um dýrðir á aðal kvikmyndaverðlaunahátíðinni í Suður Kóreu fyrr í þessari viku, Daejong Film Awards, sem líkja má við Óskarsverðlaunin. Fór hátíðin fram fyrir nær tómum sal, og verðlaunahafar voru víðs fjarri, þar á meðal sjálfur Óskarsverðlaunahafinn Bong Joon-ho, sem fékk verðlaunin fyrir mynd sína Sníkjudýrin, eða Parasite.

Sníkjudýrafjölskyldan á góðri stundu.

Verðlaunahátíðin, sem haldin var í 56. skipti, og er einnig kölluð Grand Bell Awards, fór nú fram í fyrsta skipti án áhorfenda frá stofnun árið 1962.  Ástæðan er kórónuveirufaraldurinn.

Parasite fékk fimm verðlaun á hátíðinni, þar á meðal verðlaun fyrir bestu mynd og besta leikstjóra. Myndin fékk alls ellefu tilnefningar.

Kwak Sin-ae, forstjóri framleiðslufyrirtækisins Barunson E&A, las þakkarræðu fyrir hönd leikstjórans, og sagði að Bong væri í fríi sem stæði.

Parasite fékk einnig verðlaunin fyrir besta handrit og tónlist. Þá vann Lee Jung-eun verðlaunin fyrir bestan meðleik kvenna.

Fulltrúi Barunson E&A sagði dagblaðinu The Korea Herald að Bong hefði ekki tekið þátt í neinum opinberum viðburðum síðan hann mætti á Óskarshátíðina í febrúar sl. Hann hefði eytt tíma sínum í að undirbúa næstu kvikmyndir.

Eins og segir í The Korea Herald þá hefur hátíðin mátt muna sinn fífil fegurri, en margir hundsuðu hátíðina árið 2015 eftir að forsvarsmenn hennar settu sem skilyrði að tilnefndir aðilar væru viðstaddir, til að þeir gætu fengið verðlaun.

Síðan þá hefur hátíðin glatað nokkru af ljóma sínum.