Á Adamsklæðum á hvíta tjaldinu – Átta safaríkar senur

Konur eru oft naktar á hvíta tjaldinu eða á sjónvarpsskjám. Svo oft eru þær naktar að við erum mörg hver hætt að taka eftir því. Hins vegar lítum við tvisvar við þegar göndull birtist….. nema myndin sé íslensk því þá er þetta eðlilegt. Því spyr undirrituð*, hvaða erlendu myndir eru með bestu nektaratriði þar sem karlmaður kemur við sögu?

Shame

Það voru ekki margir sem fóru á þessa í bíó hér á landi en ég er nokkuð viss um að það hefði aukist ef fólk hefði vitað að Michael Fassbender sæist nakinn í allri sinni dýrð. Fassbender hefur líka enga ástæðu til að vera feiminn og þess vegna fær hann að vera fyrst nefndur hér. Hann gengur um beinn í baki fram og til baka og meðan myndin særir blygðunarkennd margra þá er sannkallaður stórleikur í frammistöðunni.


Bronson

Skemmtileg mynd byggð á hinum léttgeggjaða og nokkuð ofbeldisfulla Michael Peterson sem tekur upp nafnið Charles Bronson. Hann er þekktur bæði sem dýrasti fangi Bretlands og sá ofbeldisfyllsti sem stigið hefur í fangaklefa. Tom Hardy leikur hann hér og hann er sko ekki feiminn að sýna djásnin. Hann telur ekki einu sinni þörf á að vernda þau í hættulegum aðstæðum.


American Gigolo

Richard Gere er sagður vera fyrsti A leikarinn til að bera sig. Myndin kemur út 1980 og það er auðvelt að trúa því þar sem kvikmyndaumhverfið var ekki eins framsækið og það er núna. Í myndinni sjáum við hliðartyppið í næstum 15 sekúndur en á þeim tíma var þetta nánast talið klámfengið.


Velvet Goldmine

Ewan McGregor að syngja með eyeliner og sýnir nekt! Af hverju veit fólk ekki af þessari mynd? Það var erfitt að velja á milli þessarar eða Trainspotting en þessi varð fyrir valinu til að ýta undir að fleiri leiti hana uppi og kíki á hana.


Eastern Promises

Hér hefur Viggo Mortensen engan hring til að gera sig ósýnilegan en myndatakan og hreyfingar leikarans gera það að verkum að við sjáum mest af rassinum. Ef þið teljið ykkur ekki sjá nóg af djásnum Viggos þá er líka hægt að sjá þau í The Indian Runner.


Forgetting Sarah Marshall

Eitt fyndnasta og jafnframt sárasta augnablik í bíómynd þegar Sarah Marshall (Kristen Bell) segir Peter (Jason Segel) upp meðan hann er nakinn. Best í heimi er augnablikið áður þegar hann veifar honum um og segist vera með eitthvað óvænt handa henni. Við sjáum ekki en við heyrum smellina og við vitum að hann hangir vel.


Gone Girl

Þetta er augnabliks atriði en þetta er Batfleck þannig hann fær að vera með. Ef leitað er á google er hægt að framlengja augnablikið.


The Hangover (og The Hangover: Part II)

Ken Jeong var alger snilld sem glæpamaðurinn Mr. Chow. Hver man ekki eftir atriðinu þegar hann stekkur upp úr skottinu og ræðst á alla? Alveg berrassaður! Nema brúskurinn var svo stór að það var eins og hann væri í hálfgerðri lendaskýlu.

Í framhaldsmyndinni sjáum við af hverju það er en félaginn er ansi lítill, meira að segja miðað við litla hendi apans sem leikur með hann.

Sigríður Clausen*