Nýtt nafn sjálfstæðs framhalds What We Do In The Shadows

Árið 2014 (reyndar 2015 sums staðar) kom út gervi-heimildarmynd sem heitir What We Do In The Shadows. Hún sýndi sambúð fjögurra vampíra á mismunandi aldri, sem leigðu hús í úthverfi Wellingtonborgar á Nýja-Sjálandi sem er kallað Te Aro. Í myndinni var fjallað um hversu flókin sú sambúð gæti verið með hversdagslegum vandamálum, en sum þeirra voru reyndar vampíru-tengd eins og varúlfar, fólk sem vildi drepa þá auk þess sem komið var inn á það hvað gerist þegar þú býrð til nýjar vampírur.

What-We-Do-In-The-Shadows-cover-3

Myndin gekk nokkuð vel í bíó, þar sem hún þénaði 6,9 milljónir dollara, en það kostaði bara 1,6 milljón dollara að gera hana og á Rottentomatoes.com er hún sögð vera 96% fersk (sem sagt mjög góð).

Það er því kannski ekki svo skrýtið að það eigi að gera aðra mynd, en hún verður nokkurn veginn sjálfstætt framhald fyrri myndarinnar og mun hún heita We’re Wolves. Er þetta orðaleikur á ensku sem hægt er að lesa á tvo vegu. Annað hvort ‘við erum úlfar’ (we are wolves) eða ‘varúlfar’ (werewolves).

Fyrra nafn myndarinnar, samkvæmt eldri fréttum, var víst What We Do In The Moonlight. Sem vísar til nafns fyrstu myndarinar, en líka til varúlfanna sem komu fyrir í henni í skamman tíma og verður We’re Wolves líklega um þessa sömu varúlfa.

Það er samt ekki alveg víst hvenær við munum fá að sjá þessa mynd þar sem Taika Waititi (einn af handritshöfundum og aðalleikurum fyrstu myndarinnar) verður nokkuð upptekinn í ár við það að leikstýra þriðju Thor myndinni (Thor: Ragnarok) fyrir Marvel, en hún á að koma út á næsta ári.

Hann var líka nýlega á Sundance kvikmyndahátíðinni að kynna nýjustu grínmynd sína (Hunt For The Wilderpeople) sem hann leikstýrði og skrifaði handritið að, en hún er byggð á bókinni Wild Pork And Watercress eftir Barry Crump.

Svo virðist samt vera að Waititi og Jermaine Clement (hinn handritshöfundurinn og einn af aðalleikurum fyrri myndarinnar) séu líklega nú þegar byrjaðir að skrifa handritið fyrir We’re Wolves.

Vonandi kemur hún þó út áður en um of langt líður, því ef hún verður jafn skemmtileg og fyrri myndin þá verður vel þess virði að sjá hana í bíó.