Metaðsókn á Marsbúa

Matt Damon og Ridley Scott myndin Marsbúinn, eða The Martian, tók Bandaríkin með trompi um helgina og fór beint á topp bandaríska aðsóknarlistans með 55 milljónir Bandaríkjadala í áætlaðar tekjur fyrir helgina alla. Myndin, sem fjallar um geimfara sem verður strandaglópur á plánetunni Mars, náði næstum því að slá met yfir mestu tekjur á frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum í október, en það met á önnur geimmynd, Gravity.

Matt Damon portrays an astronaut who must draw upon his ingenuity to survive on a hostile planet.

Allt hjálpaðist að við að vekja athygli á myndinni. Gagnrýnendur lofuðu myndina, leikstjórn Ridley Scotts og leik Matt Damon, auk þess sem fregnir af því að vatn væri að finna á Mars, sem bárust í síðustu viku, komu á besta tíma fyrir myndina.

Þessi frumsýningarhelgi er sú önnur besta á ferli Scott, en aðeins Hannibal gerði betur, en hún þénaði 58 milljónir dala á fyrstu helgi sinni í sýningum. Ennfremur er þetta önnur vinsælasta mynd Damon á frumsýningarhelgi – aðeins The Bourne Ultimatum fékk meiri aðsókn á fyrstu helgi í sýningum, og skilaði tekjum upp á 69,3 milljónir dala árið 2007.

Fyrirfram spáðu menn The Martian tekjum upp á 45 milljónir dala eftir sýningar helginnar, en aðsóknin fór vel fram úr þeim vonum.

Gravity þénaði 55,8 milljónir dala helgina sem hún var frumsýnd.

The Martian gengur einnig vel utan Bandaríkjanna og hefur þénað samkvæmt Variety 45,2 milljónir dala á 49 markaðssvæðum.