The Rite á toppnum í Bandaríkjunum

Það fór eins og spáð hafði verið; særingatryllirinn The Rite með Sör Anthony Hopkins í aðalhlutverkinu náði toppsætinu á bíóhúsum Bandaríkjanna um helgina. Það verður að teljast við hæfi, því aðsókn það sem af er ári er búin að vera djöfullega léleg vestra.

Um 15 milljónir dollara dugðu The Rite til að hrifsa toppsætið af rómantísku gamanmyndinni No Strings Attached, sem hefur hagnast á miklu umtali um Natalie Portman og frammistöðu hennar í Black Swan, hversu undarlega sem það hljómar. Í þriðja sætinu var svo hasarmyndin The Mechanic með Jason Statham. Sú mynd fékk venjulega janúar-hasarmynda-aðsókn, eða um 11,5 milljónir með horfum á miklum afföllum næstu helgar. Í fjórða sætinu var svo The Green Hornet með nánast sömu aðsókn og The Mechanic.

Í fimmta og sjötta sætinu var að finna tilnefningakónga væntanlegrar Óskarsverðlaunahátíðar, en bæði The King’s Speech og True Grit bættu við sig aðsókn frá síðustu helgi, án nokkurs vafa vegna þeirra 22ja samanlögðu Óskarsverðlauna sem þær voru tilnefndar til. Þó að Black Swan og The Fighter næðu ekki að bæta í aðsókn á milli helga stóð hún nánast í stað hjá þeim báðum, sem er vel af sér vikið á markaði þar sem venjuleg afföll milli helga eru 25-50%.

Heildaraðsókn í Bandaríkjunum var þó aðeins svipur hjá sjón frá sama tíma í fyrra, þegar Avatar var ennþá á fullu með yfir 30 milljónir dollara um hverja helgi. Eru heildartekjurnar það sem af er ári heilum 27% minni en 2010 og 20% minni en 2009. Hefur fjöldi seldra miða ekki verið minni á þessum tímapunkti síðan 2003.

Þar sem ekki er von á öruggum stórsmelli fyrr en í mars í fyrsta lagi naga nú framleiðendur og bíóeigendur um öll Bandaríkin neglurnar af miklu kappi og vona að einhver mynd þangað til nái að slá í gegn og hífa upp aðsóknina, en til þess þarf að treysta á myndir eins og Sanctum, Justin Bieber-myndina Never Say Never, I Am Number Four, Drive Angry, Rango, The Adjustment Bureau eða Unknown.

Það þarf bara að koma í ljós hverri þeirra tekst það best.

-Erlingur Grétar