Hamill les bók – skegglaus á Twitter!

Þeir Star Wars aðdáendur sem eru á Twitter, en fylgja ekki Mark Hamill, eða Loga Geimgengli, á Twitter, ættu umsvifalaust að bæta úr því, enda er hann afar virkur tístari, og mjög vinalegur og skemmtilegur.

Auk þess birtir hann margt upplýsandi varðandi Star Wars og allt sem er að gerast í þeim heimi.

hamill

Athygli vakti nú fyrir nokkrum dögum þegar hann birti mynd af sjálfum sér að lesa Star Wars bók Jeffrey Brown, Darth Vader and Son. Eins og hann segir í færslunni þá sendi einhver honum lúxus útgáfu af bókinni, og hann vildi þakka viðkomandi, sem hann hafði gleymt hver var.

Athygli vakti að hann felur andlit sitt með bókinni nánast allt, nema augun, og sjálfsagt er góð ástæða fyrir því, enda virðist sem leikarinn sé búinn að raka af sér Jedi skeggið, sem hann skrýddist í Star Wars: The Force Awakens.

Hamill tilkynnti á dögunum á Twitter að tökum á Star Wars 8 lyki 22. júlí nk. sem þýðir að einungis um tvær vikur eru eftir af tökunum, sem Rian Johnson leikstjóri stýrir í þetta sinn, en hann tók við af J.J. Abrams, sem leikstýrði Star Wars 7.

Brotthvarf skeggsins þykir, að mati Movieweb, bera vott um að Hamill hafi lokið störfum og búið sé að taka upp öll hans atriði, hversu mörg sem þau svo sem eru ( vonandi fleiri en í Star Wars 7  )  en auðvitað er mögulegt að hann leiki í einhverjum atriðum skegglaus.

En hvað sem öðru líður þá er þetta skýrt merki um að allt gengur vel, og það styttist í Star Wars 8.

Star Wars Episode VIII kemur í bíó 15. desember, 2017.