Gosling gengur á tunglinu

Leikstjórinn Óskarstilnefndi Damien Chazelle, og La La Land leikarinn hans, Ryan Gosling, munu vinna aftur saman innan skamms, í myndinni First Man, sem Universal Pictures mun framleiða.

emma-stone-ryan-gosling

Chazelle leikstýrir myndinni eftir handriti Spotlight – Óskarsverðlaunahafans Josh Singer. Heimildir Variety kvikmyndavefjarins herma að tökur myndarinnar muni hefjast snemma á næsta ári.

Myndin er byggð á ævisögu James Hansen; First Man: A Life Of Neil A. Armstrong, og segir söguna af fyrstu ferðinni til tungslins, með sérstakri áherslu á geimfarann Neil Armstrong á árunum frá 1961-1969. Eins og flestir ættu að vita þá varð Armstrong fyrstur manna til að stíga fæti á tunglið.

Sagt verður frá því hvaða fórnir þurfti að færa til að gera þetta stórvirki að veruleika.

Chazelle og Gosling eru funheitir þessa dagana vegna velgengni La La Land, bæði í miðasölu og meðal gagnrýnenda, en myndin fékk flestar tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna á dögunum.