True Grit leppur Johns Wayne til sölu

Augnleppur gamla kúrekaleikarans John Wayne, sem hann bar í upprunalegu True Grit myndinni frá 1969, er nú til sölu en bjóða á gripinn upp hjá Heritage uppboðshúsinu 3-6. október nk. í Los Angeles í Bandaríkjunum. Ásamt leppnum þá verða Golden Globe verðlaun Waynes sem hann hlaut fyrir túlkun sína á lögreglustjóranum Rooster Cogburn einnig boðin upp.

Uppboðshúsið segir í tilkynningu að um sé að ræða fyrsta uppboðið á munum úr persónulegri eigu Johns Wayne. Auk leppsins og styttunnar þá verða boðin upp kúrekastígvél leikarans og kúrekahattur, ökuskírteini, vegabréf og kreditkort. Ennfremur verða boðin upp kvikmyndahandrit með athugasemdum Waynes, sem hann páraði sjálfur á handritið.

Einn sona Wayne, Ethan Wayne, sem stýrir viðskiptaveldi kennt við föður hans, John Wayne Enterprises, segir að eftir að faðir hans lést árið 1979, þá hafi fjölskyldan aldrei farið í gegnum geymslurnar og skoðað hvað þar var að finna, þar til nú.

Hann segir að söfn eigi nú þegar hluti eftir föður hans og minnisgripi, og þau sjálf hafi haldið eftir hlutum sem höfðu persónulega þýðingu, en nú væri komið að því að gefa aðdáendum tækifæri á að eignast minjagripi um John Wayne, en hann segir föður sínum alltaf hafa verið annt um aðdáendur sína.
John Wane lék í meira en 170 vestrum og stríðsmyndum á ferlinum, en hann lést af völdum magakrabba, 72 ára að aldri árið 1979.
Talið er að verðið á einstökum minjagripum geti rokkað allt frá 100 Bandaríkjadölum og upp í 50.000.

Fyrir heitustu aðdáendurna þá er í boði persónuskilríki Wayne frá 1929/1939 með skírnarnafni leikarans, áður en hann breytti nafni sínu í John Wayne – Duke Morrison.

Ethan segir að hann muni eftir því þegar hann var ungur maður að hann mátti aldrei fara út úr húsi nema að hafa bunka af árituðum leikaramyndum af pabba sínum, til að rétta aðdáendum sem hann kynni að rekast á.

„Hann var með þrjá ritara sem unnu fimm daga vikunnar við að opna póst frá aðdáendum og hjálpuðu honum að svara póstinum.“
Ágóðinn af uppboðinu mun renna til John Wayne Enterprises sem styður krabbameinssjóðinn John Wayne Cancer Foundation.

Stikk: