Bay: Transformers 2 var klúður

Leikstjórinn sprengjuglaði Michael Bay vinnur nú hörðum höndum að þriðju myndinni í Transformers seríunni. Myndirnar um vélmenninn risavöxnu hafa notið alveg hreint gríðarlegra vinsælda um allan heim en önnur myndin, Transformers: Revenge of the Fallen, fékk vægast sagt slæma dóma.

„Hún var hálfgert klúður. Hún klikkaði á nokkrum lykilatriðum.“ sagði Bay í nýlegu viðtali við LA Times. „Það stóra var verkfall handritshöfundanna. Við fórum inn í þá mynd með ekkert handrit og þetta var of stór mynd til að geta gert það. Við vorum í raun að púsla saman einhvers konar sögu en við höfðum ekki mikin tíma“.

Bay segir hina væntanlegu þriðju mynd í seríunni, Transformers: The Dark of the Moon, hinsvegar stórgóða kvikmynd sem mun gleðja marga þá sem hafa gagnrýnt Transformers kvikmyndabálkinn. En engu munaði að Bay hefði aldrei komið að þessu myndum, en þegar Steven Spielberg bað hann um að leikstýra fyrstu myndinni árið 2007 sagði Bay það fáránlega hugmynd. Eftir að hafa lesið sér til um persónurnar og söguna bakvið þær snérist honum hugur.

– Bjarki Dagur