Star Wars tónskáld á sjúkrahúsi

Star Wars tónskáldið John Williams hefur neyðst til að hætta við að koma fram á þremur tónleikum, eftir að hann þurfti að leggjast inn á spítala vegna veikinda. Tónskáldið, sem er 86 ára gamalt, átti að koma fram með Lundúnarsinfóníunni í Royal Albert Hall á morgun, föstudaginn 26. október. Þá er líklegt að Williams þurfi einnig að hætta við að koma fram með Vínarfílharmóníunni 3. og 4. nóvember nk.

Vinur Williams, Dirk Brossé, mun stjórna hljómsveitunum í stað Williams, á meðan hann jafnar sig á spítalanum. Í yfirlýsingu Royal Albert Hall vegna málsins segir ma.: “John er miður sín yfir því að veikindi komi í veg fyrir það að hann geti stjórnað á tónleikunum á föstudaginn, og hann er þakklátur Maestro Dick Brass fyrir að hlaupa í skarðið. Hann hefði óskað þess að geta verið í salnum, og það að vita af 5.000 af vinum hans samankomnum til að hlýða á tónlist hans mun styðja hann í bataferlinu. Hann óskar öllum góðrar skemmtunar.”

Ekki er vitað hvað hrjáir tónskáldið. Williams er eitt þekktasta kvikmyndatónskáld samtímans, en hann samdi tónlist við báða Star Wars þríleikina, sem og The Force Awakens og The Last Jedi. Williams átti einnig þátt í að semja þemalag fyrir Solo: A Star Wars Story og mun einnig semja tónlistina fyrir Star Wars 9.

Auk þessara verkefna þá er Williams þekktur fyrir tónsmíðar sínar fyrir myndir eins og Jaws, Close Encounters of the Third Kind, Superman, E.T. the Extra-Terrestrial,  Indiana Jones seríuna, tvær fyrstu Home Alone myndirnar, Hook, fyrstu tvær Jurassic Park myndirnar, Schindler’s List, og fyrstu þrjár Harry Potter kvikmyndirnar.

John Williams er sá einstaklingur sem hefur fengið næst flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna, næst á eftir Walt Disney. Hann hefur fengið 51 tilnefningu og unnið Óskarinn fimm sinnum, auk fjölda annarra verðlauna.

Williams tilkynnti nýlega að hann myndi hætta að semja fyrir Star Wars myndir þegar vinnu við Star Wars 9 lýkur.