Venom 2 færð til næsta árs – Nýi titillinn afhjúpaður

Framhaldið af hinni stórvinsælu Venom frá 2018 mun ekki lenda í kvikmyndahúsum þann næstkomandi október eins og upphaflega stóð til. Kvikmyndaver Sony hefur tekið þá ákvörðun að fresta myndinni um átta mánuði, til júnímánaðar ársins 2021, og er kórónuveiran að sjálfsögðu sökudólgurinn í þeim málum. Í ljósi ástands er útlit fyrir að aðstandendur myndarinnar nái ekki að fullklára myndina fyrir settan dag.

Orðrómar um breyttu dagsetninguna voru farnir að dreifast víða um veraldarvefinn, sem og fullt heiti kvikmyndarinnar, en skömmu síðar gaf Sony út formlega tilkynningu og staðfesti hvort tveggja.

„Venom 2“ mun núna bera heitið Venom: Let There Be Carnage.

Myndinni er leikstýrt af Andy Serkis og ber þess að geta einnig að virti fagmaðurinn Robert Richardson sér um kvikmyndatökuna, en Richardson er þekktur fyrir að hafa unnið mikið með mönnum eins og Martin Scorsese, Oliver Stone og Quentin Tarantino.

Tom Hardy snýr að sjálfsögðu aftur í aðalhlutverkinu og Michelle Williams verður ekki fjarri gamninu góða, frekar en fyrri daginn. Saga framhaldsins tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið síðast. Líkt og var gefið til kynna í lokin á upprunalegu myndinni mun söguhetjan glíma við óþokkann Carnage. Það er Woody Harrelson sem leikur andstæðinginn, Cletus Kasady, sem gengur undir nafninu hrottalega þegar sníkjudýrið ógurlega kemst í kynni við hann.

Hér má finna handahófskennda en stórfyndna senu úr upprunalegu Venom.