Pixar dælir út framhaldsmyndum

Pixar hefur opinberlega staðfest að Finding Nemo fái framhald á næstu árum. Einnig er komin frumsýningardagsetning á framhald Monsters Inc. Monsters kom út árið 2001 og Nemo árið 2003 þannig að eftir langa bið geta aðdáendur þessara mynda loksins farið að telja niður. Monsters University (í þrívídd) verður frumsýnd 21. júní á næsta ári í Bandaríkjunum en það er ekki enn komin dagsetning á hvenær Nemo týnist aftur. Andrew Stanton, leikstjóri fyrri myndarinnar og John Carter, hefur verið orðaður við leikstjórn Nemo en þær fregnir eru enn óstaðfestar. sullyscared

Einnig er talið að Pixar sé að vinna að Toy Story 4 en fyrirtækið vill ekkert staðfesta um það ennþá. Það er talið nokkuð öruggt þó þar sem Tom Hanks sjálfur (Woody) kjaftaði frá í viðtali við BBC í fyrra að myndin væri í bígerð. Líklegt er að hún komi út árið 2015.

Semsagt nóg að gera hjá Pixar þessa dagana við framhaldsmyndagerð. Hér fyrir neðan getið þið hitað upp fyrir Monsters University með því að kíkja á stórskemmtilega kitlu og eftir það megið þið henda inn athugasemd um hvaða framhaldi þið eruð spenntust fyrir.