Spielberg á Írlandi að gera hrollvekju

Óskarsverðlaunaleikstjórinn Steven Spielberg dvelur nú á Wicklow á Írlandi til að taka upp nýjustu kvikmynd sína, hrollvekjuna The Turning. Þetta kemur fram í írska blaðinu The Independent, en fyrirtæki Spielberg, Amblin Entertainment, framleiðir myndina.

Verkefnið er sveipað miklum leyndarhjúp að sögn blaðsins, og harðbannað er að birta myndefni frá tökustað. Til að tryggja leyndina er gríðarleg öryggisgæsla á tökustað, en tökur fara að hluta til fram á Kilruddery býlinu. Allir leikarar hafa þurft að rita undir samning um algjöra þagmælsku, og enginn fær að koma nálægt tökustað nema gegn sérstöku leyfi þar um. Í blaðinu segir að koma Spielberg til eyjarinnar grænu sé talin mikill hvalreki fyrir írskan kvikmyndaiðnað, en talið er að Hollywood stjarnan hafi verið á Írlandi síðan í síðustu viku. Kvikmyndin, sem upphaflega kallaðist The Haunted, er með hinum 15 ára gamla Kanadamanni Finn Wolfhard úr Stranger Things sjónvarpsþáttunum í aðalhlutverkinu.

Leikstjóri er Floria Sigismondi.

Í kvikmyndinni er sögð saga ungrar konu, sem Mackenzie Davis leikur, sem tekur að sér að passa tvö munaðarlaus börn sem búa í draugalegu stórhýsi. Eins og segir í írska blaðinu var Kilruddy býlið talið tilvalið sem sögusvið myndarinnar, sem byggð er á sögu Henry James, The Turn of the Screw. Spielberg hefur áður sótt Írland heim. Hann kom til landsins til að sannfæra írska leikarann Daniel Day Lewis um að leika aðalhlutverkið í Lincoln, sem hann vann þriðju Óskarsverðlaun sín fyrir á endanum. Þá eyddi leikstjórinn talsverðum tíma á Írlandi við tökur á stríðsmyndinni Saving Private Ryan en  Curracloe ströndin írska var sögusvið hins dramatíska opnunaratriðis myndarinnar.