Nýtt nafn á Prometheus 2!

Prometheus , The Martian og Alien leikstjórinn Ridley Scott hefur uppljóstrað heitinu á Prometheus 2, en hann segir myndina eiga að heita Alien: Paradise Lost, sem kemur vafalaust einhverjum á óvart, enda virðist sem leikstjórinn sé þarna að tengja Promethues og Alien seríuna saman með þráðbeinum hætti, og gera þannig Prometheus 2 að kafla í Alien seríunni.

prome

 

Scott hyggst gera alls fjórar Prometheus myndir, sem eru forsaga Alien myndanna, eins og við greindum frá hér á síðunni. 

Prometheus myndirnar munu þó ekki ná fyrstu Alien myndinni í tíma fyrr en í mynd nr. 3 eða 4.

„Í rauninni þá verður myndin kölluð Alien: Paradise Lost, þannig að hún mun ekki heita Prometheus 2,“ sagði Scott í samtali við vefsíðuna HeyYouGuys.com, en með Paradise Lost segist hann vera að vísa til frægs ljóðs eftir 17. aldar skáldið enska John Milton, Paradísarmissis, sem fjallar um Biblíusöguna af Adam og Evu og því þegar djöfullinn freistaði þeirra, sem endaði síðan með brottrekstri þeirra úr aldingarðinum Eden.

Óvíst er þó á þessari stundu hvað þessi tenging þýðir nákvæmlega fyrir söguþráð Alien: Paradise Lost.