Lísa 2 fær titil og tökur að hefjast

lísaTökur eru að hefjast á Alice in Wonderland 2, eða Lísa í Undralandi 2, auk þess sem myndin hefur fengið fullan titil: Alice in Wonderland: Through the Looking Glass.

Fyrri myndin, sem Tim Burton leikstýrði, sló í gegn og þénaði meira en 1 milljarð Bandaríkjadala í kvikmyndahúsum á heimsvísu árið 2010.

Í fyrri myndinni var blandað saman sögum úr báðum bókum Lewis Carroll um Lísu í Undralandi,  Alice’s Adventures in Wonderland og Through the Looking-Glass með smá skammti af efni sem handritshöfundurinn Linda Woolverton kokkaði saman við frá eigin brjósti.

James Bobin, sem leikstýrði báðum Prúðuleikaramyndunum nýju, mun leikstýra þessari nýju Lísu í Undralandi mynd og Woolverton mun aftur sjá um handritið.

Myndinni er lýst sem alveg nýrri sögu og fer m.a. aftur í tímann.

Mia Wasikowska mætir aftur í hlutverki Lísu, eða Alice Kingsleigh,  eins og hún heitir fullu nafni, sem nú þarf að hjálpa brjálaða hattaranum, sem Johnny Depp mun leika á ný.

Rhys Ifans (The Amazing Spider-Man) leikur Zanik Hightopp, föður Mad Hatter, þannig að ekki er ólíklegt að í myndinni fáum við eitthvað að vita um æsku Hattarans.

Anne Hathaway og Helena Bonham Carter mæta einnig aftur til leiks sem hvíta og rauða drottningin.

Stephen Fry, Alan Rickman og Michael Sheen eru sömuleiðis um borð, auk þess sem gamanleikarinn Sacha Baron Cohen leikur þorparann “Time”

Myndin er væntanleg í bíó 27. maí 2016.