Deadpool 2 leikstjóri hættur

Tim Miller, leikstjóri ofurhetjumyndarinnar vel heppnuðu Deadpool, mun ekki snúa aftur og leikstýra framhaldi myndarinnar, Deadpool 2. Ástæðan er listrænn ágreiningur við aðalstjörnu myndarinnar, Ryan Reynolds, sem fór með hlutverk Deadpool, og hefur að sögn, mikið listrænt vald varðandi framhaldið.

deadpool

Þó að Miller hafi ekki formlega verið búinn að skrifa undir samning um að leikstýra framhaldsmyndinni, þá var hann byrjaður að þróa handritið og almennt var búist við því að hann myndi snúa aftur sem leikstjóri. Heimildir Deadline vefjarins herma að viðskilnaðurinn hafi verið í góðu.

Eftir gríðarlega velgengni Deadpool í miðasölunni, þá var strax ljóst að framhald yrði gert, og tilkynnt var um það sérstaklega á CinemaCon hátíðinni í apríl sl. Stjórnarmaður í Fox kvikmyndafyrirtækinu, Stacy Snider, staðfesti þar að Reynolds myndi snúa aftur, og Miller sömuleiðis.

Deadpool þénaði litlar 786 milljónir Bandaríkjadala í miðasölu um allan heim, en myndin var frumsýnd á Valentínusardaginn fyrr á þessu ári. Myndin er stærsti smellur fyrirtækisins á árinu, og er sem stendur sjöunda tekjuhæsta bíómynd ársins, og tekjuhæsta bannaða mynd allra tíma um allan heim.

Deadpool endurreisti feril og orðstír Reynolds eftir að hann hafði leikið í floppum eins og RIPD og Green Lantern, og vakti sömuleiðis athygli á Miller sem leikstjóra.

Deadpool var einnig vel tekið af gagnrýnendum, og er með 84% á Rotten Tomatoes.