Frumsýning: Frankenweenie

SAMbíóin frumsýna föstudaginn 19. október nk. nýjustu mynd leikstjórans Tim Burton, Frankenweenie.  Þetta er leikbrúðumynd sem er undir miklum áhrifum frá hinni frægu skáldsögu um uppvakninginn Frankenstein.

Í fréttatilkynningu frá SAMbíóunum segir að húmorinn sé í fyrirrúmi í myndinni, en hún segir frá hinum unga Victor sem hefur nýverið misst sinn besta vin, hundinn Sparky, sem var ekkert nema tryggðin og vinarþelið uppmálað.

Næstu daga er Victor afar sorgmæddur og á erfitt með að sætta sig við orðinn hlut. Dag einn í náttúrufræðitíma í skólanum útskýrir kennarinn fyrir bekknum að í raun séu vöðvaviðbrögð knúin áfram af rafboðum sem virkja taugarnar. Þessu til sönnunar sýnir hann nemendum sínum hvernig dauður froskur hreyfist á ný þegar rafmagn er leitt í gegnum hann.

Þetta gefur Victor hugmynd. Hann ákveður að láta reyna á tæknina, fer og grefur Sparky upp, klastrar honum saman (Sparky hafði dáið í bílslysi og er frekar óhrjálegur) og hífir hann síðan upp á þak í þrumu-og eldingaveðri. Tilraunin heppnast og Sparky vaknar á ný til lífsins, jafn ljúfur og hann hafði alltaf verið.

En upprisunni fylgja ýmis vandamál …

Smelltu hér til að skoða sýnishorn úr myndinni.

Þeir sem tala fyrir persónur myndarinnar eru þau Charlie Tahan, Winona Ryder, Christopher Lee, Martin Landau, Martin Short, Robert Capron, Conchata Ferrell og Catherine O’Hara.

Myndin verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, og aldurstakmark er 7 ára.

Frekari upplýsingar til gamans: 

  •  Myndin er byggð á samnefndri stuttmynd Tims Burton frá árinu 1984, en Tim ætlaði sér alltaf að gera seinna mynd í fullri lengd um hundinn Frankenweenie og upprisu hans frá dauðum.
  • Þetta er í annað sinn sem þær Winona Ryder og Catherine O’Hara leika saman undir stjórn Tims Burton því þær léku mæðgurnar í mynd hans Beetlejuice árið 1988.