Kvikmyndir.is forsýnir Dark Shadows!

Við elskum kvikmyndir, og við elskum ekki síður að halda forsýningar svo gestir og notendur síðunnar geti séð sumar kvikmyndir á undan öllum öðrum. Rétt í þessu höfum við ákveðið að halda sérstaka Kvikmyndir.is forsýningu á Tim Burton-myndinni Dark Shadows, sem verður heimsfrumsýnd um helgina. Forsýningin verður degi á undan, nánar til tekið á fimmtudaginn kl. 21:00 í Sambíóunum, Egilshöll (þar sem allir salir eru góðir – jafnvel þeir minnstu!). Prísinn miðast við almennar sýningar og kostar ekki nema 1250 kr. inn. Athugið að myndin er ekki í þrívídd.

Ef þú hefur áhuga á því að slíta þig örstutt frá prófarlestri og vera með þeim fyrstu á landinu til að berja augum á þessa ræmu, þá þarftu ekki að leita langt til að tryggja þér miða. Hægt er að versla miða bæði inn á Sambio.is (smellið hér) eða í næsta kvikmyndahúsi Sambíóanna. Við munum svo tilkynna það strax á Facebook-síðunni okkar þegar miðarnir verða búnir.

Saga myndarinnar hefst árið 1752. Joshua og Naomi Collins, ásamt ungum syni þeirra Barnabas, sigla af stað frá Liverpool í Englandi til að hefja nýtt líf í Bandaríkunum. En það er ekki nóg að haf skilji á milli fyrir þau, til að sleppa undan dulafullum álögum sem hafa legið eins og mara á fjölskyldu þeirra. Tveir áratugir líða og Barnabas á lífið framundan, en þau búa í Collinsport, Maine. Barnabas er aðalkarlinn í bænum, hann er ríkur og valdamikill og mikill glaumgosi… eða allt þar til hann gerir þau mistök að hryggbrjóta Angelique Bouchard. Hún er norn og dæmir hann til örlaga sem eru verri en dauðinn sjálfur; hún breytir honum í vampíru og grefur hann síðan lifandi. Tveimur öldum síðar er Barnabas frelsaður úr gröf sinni og þarf nú að takast á við lífið árið 1972. Hann snýr aftur til Collinwood Manor og sér að glæsihýsi hans er rústir einar. Afkomendur Collins fjölskyldunnar eru lítið betur á sig komnir …

Hér er stiklan fyrir myndina…

… en gætið þess að sýnishornið gefur upp talsvert villandi mynd af tóninum. Myndin er í rauninni nett drungaleg, og stendur ansi vel undir nafni (sem er þægileg tilbreyting frá Alice in Wonderland, ekki satt?)

Komdu nú og njóttu gotneskrar kvöldstundar með Kvikmyndir.is teyminu og helstu Burton-aðdáendum landsins!