Tvífarinn rænir tvífaranum

Það er óneitanlega freistandi hugmynd að eiga tvífara sem hægt væri að senda fyrir sig í vinnuna til dæmis, eða biðja um að láta koma fram fyrir sig við ýmis tækifæri, sem maður nennir ekki sjálfur að mæta á.  Social Network og Now You See Me stjarnan Jesse Eisenberg er þó ekki neitt sérstaklega upprifinn yfir því að hafa eignast tvífara í spennutryllinum The Double, eftir Richard Avoade.

jesse

Myndin er lauslega byggð á stuttri skáldsögu eftir rússneska rithöfundinn Fyodor Dovstoyesvsky, en Eisenberg leikur mann sem verður smátt og smátt geðveikur eftir að tvífari hans kemur til sögunnar.

Eins og sést í þessari nýju stiklu fyrir myndina, þá leikur Eisenberg bæði hlutverkin, það er sjálfan sig, og tvífarann.

Undir stiklunni hljómar lagið Grinnin in Your Face eftir blússöngvarann Son House. 

Í rauninni er maður samt litlu nær um efni myndarinnar af því að horfa á stikluna, þar sem Simon (Eisenberg) eyðir þónokkrum tíma í að ganga með steinrunnið andlit.

Samband Simon/James og persónu Mia Wasikowaska, Hannah, kemur aðeins við sögu í stiklunni, en Simon er ástfanginn af henni en þorir ekki að gefa sig á tal við hana.

Söguþráðurinn er annars þessi: Simon er uppburðarlítill maður, og það fer lítið fyrir honum. Enginn tekur sérstaklega eftir honum í vinnunni, móðir hans fyrirlítur hann, og konan sem hann elskar virðir hann ekki viðlits. Hann sér enga von um að geta breytt þessu til betri vegar. Þá kemur til sögunnar nýr samstarfsfélagi, James, sem veldur róti á líf Simons. James er bæði nákvæmlega eins í úliti og Simon, en á sama tíma er hann algjör andstæða hans, sjálfsöruggur, hefur persónutöfra og á gott með að laða að sér konur. Simon til mikils hryllings, þá byrjar James smátt og smátt að yfirtaka líf hans.

Eins og áður sagði þá sló Eisenberg í gegn í hlutverki Mark Zuckerberg í The Social Network og lék einnig í töfratryllinum Now You See Me fyrr á þessu ári. Leikstjórinn Ayoade er best þekktur fyrir að hafa leikið Maurice Moss í sjónvarpsþáttunum The IT Crowd, og fyrir leik í bresku gamanþáttunum The Mighty Boosh og hrollvekju-grínþáttunum Garth Marenghi’s Darkplace.

Nú nýlega  hefur hann verið að vekja athygli sem leikstjóri, og var tilnefndur til BAFTA verðlauna fyrir mynd sína Submarine. 

The Double verður sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem nú er hafin, en ekki er vitað hvenær hún fer í almennar sýningar í Bandaríkjunum.