Segir faraldurinn hafa jákvæð áhrif á fjórðu Thor-myndina

Fjölmargir sem starfa í kvikmyndageiranum hafa nýtt sér þennan tíma einangrunar, samkomubanna og seinkana í ljósi faraldursins til að fínpússa þau verk sem eru í vinnslu. Á meðal þeirra er nýsjálenski leikstjórinn, handritshöfundurinn og gamanleikarinn Taika Waititi.

Waititi hefur síðustu mánuði unnið hörðum höndum að undirbúningi Marvel-myndarinnar Thor: Love and Thunder. Áætlað var að frumsýna stórmyndina sumarið 2021 en var henni frestað til febrúarmánaðar 2022. Leikstjórinn sagði í viðtali við tímaritið Total Film að stærsta vandamálið við framleiðslu á stórmyndagerð sé tímaleysi, að gefist oft ekki nægur tími til að skipuleggja og undirbúa það sem þarf. Waititi vill meina að veirufaraldurinn hafi veitt honum þennan óvænta lúxus í hans tilfelli og hefur hann verið að yfirfara handrit nýjustu Thor-myndarinnar.

„Það er jákvætt að fá allan þennan aukatíma til að skrifa. Vonandi verðum við þá komin með virkilega, virkilega gott handrit. Þegar kemur að skrifum þarftu allan þann tíma sem gefst til að ná réttum tökum á sögunni,“ segir Waititi við Total Film.

Waititi hefur verið heldur eftirsóttur undanfarinn ár og hafa myndirnar hans fallið vel í kramið hjá flestum áhorfendum. Fyrr á árinu hreppti hann Óskarsstyttu fyrir handrit kvikmyndarinnar Jojo Rabbit, en þar áður gerði hann Thor: Ragnarok, sem er tvímælalaust af flestum talin vera ein af hressari og skemmtilegri Marvel-myndum síðari ára.

Hæstánægður Hemsworth

Má þess geta að Thor-leikarinn sjálfur, Chris Hemsworth, hefur farið fögrum orðum um þessa komandi kvikmynd. Nýverið var leikarinn viðtali við spjallkónginn Jimmy Kimmel og ræddi handrit fjórðu Thor-myndarinnar sérstaklega.

Hemsworth var þá að kynna Netflix-hasarmyndina Extraction og stóðst ekki mátið að koma því út að Love and Thunder væri með betri handritum sem hann hefði lesið.

„Þarna er Taika upp á sitt besta. Ef við notum útgáfuna sem ég las, þá verður þetta afar klikkað. Þessi lætur Ragnarok líta út eins og dæmigerða formúlumynd. Það er eins og við höfum spurt hóp af 10 ára krökkum hvað þeir vildu sjá í Thor-mynd og síðan sagt já við hverri einustu hugmynd sem við fengum,“ segir Hemsworth.

Auk Hemsworth fara þau Natalie Portman, Tessa Thompson og Christian Bale með stærstu hlutverk myndarinnar. Mun Waititi einnig bregða fyrir sem krúttþursinn Korg.

Aðdáendaplakat fyrir Thor: Love and Thunder