Coulson lifir!

Nördaráðstefnan New York Comic Con er í fullum gangi, og einn hápunktur hennar voru video-skilaboð frá Joss nokkrum Whedon, sem komu Marvel aðdáendum í opna skjöldu. Uppáhalds miðaldra góðlegi leyniþjónustumaðurinn okkar allra, Agent Phil Coulson, mun snúa aftur í Marvel heiminn í S.H.I.E.L.D. þáttunum sem Whedon undirbýr nú. Stundum vinna aðdáendurnir, ef þeir óska sér bara nógu heitt…

Clark Gregg birtist fyrst sem Agent Coulson í Iron Man (2008) í litlu hlutverki sem hann bjóst ekkert sérstaklega við að vera beðinn um að endurtaka. Þegar framhaldið Iron Man 2 leit dagsins ljós tveimur árum síðar, var hlutverk hans óvænt orðið stærra, og í Thor var Son of Coul orðinn að mikilvægri aukapersónu. Þegar kom að ofursmellnum The Avengers fannst því mörgum aðdáendum að Phil væri nánast einn af liðinu. Þess vegna var það extra sárt þegar að (spoiler alert!) illmennið Loki slátraði okkar manni í dramatíska hápunkti myndarinnar.

Nú hafa Marvel menn séð að ástin á persónunni er of sterk til þess að láta hana bara hverfa, og hafa sem áður segir staðfest að Gregg muni endurtaka hlutverk sitt í fyrsta þætti seríunnar.

Hvernig það verður útskýrt í þættinum er annað mál. Mögulegt er að öll atriði hans muni gerast fyrir Avengers myndina, og því sé persónan enn látin. Einnig geti verið að það komi í ljós að dauði hans hafi verið sviðsettur, með búnaði sem í Marvel myndasögunum kallast „Life Model Decoy“ – og Stark grínaðist reyndar með í upphafi myndarinnar. Aðdáendur hafa einnig viljað meina (eða óskað sér) að Coulson verði vakinn til lífsins sem vélmennið Vision. Hverju sem líður, þá höfum við allavega ekki séð fyrir endann á Coulson enn.

Hvað segja lesendur. Hvaða leið ættu þættirnir að fara? Er þetta fagnaðarefni eða bara pínlegt fan-service?