Frumsýningardagur Thor 2 opinberaður

Það kemur væntanlega fáum á óvart, en ákveðið hefur verið að gera framhald af ofurhetjumyndinni Thor, um þrumuguðinn Þór úr Marvel teiknimyndasögunum. Búið er að gefa út dagsetningu á frumsýningu annarrar myndarinnar, sem er 26. júlí 2013.
Samkvæmt Deadline kvikmyndasíðunni þá mun Chris Hemsworth aftur fara í búning þrumuguðsins, sem kemur ekki á óvart þar sem Marvel semur yfirleitt við leikarana um fleiri en eina mynd í einu. Hinsvegar virðist sem Kenneth Branagh muni ekki leikstýra annarri myndinni eins og þeirri fyrstu, þó það sé kannski ekki 100% víst ennþá.
Drög að handriti að myndinni hafa verið í vinnslu hjá Don Payne, öðrum handritshöfundi fyrri myndarinnar, en ekkert er að frétta ennþá af söguþræðinum.
Chris Hemsworth er annars orðinn mjög upptekinn í Hollywood eftir að hafa slegið í gegn sem Thor. Í gær var hann ráðinn í spennumyndina Shadow Runner, og er þessa stundina að leika í Avengers, þar sem hann leikur Thor aftur. Þá hefur hann verið ráðinn til að kenna Kristen Stewart að komast af og slást í myndinni Mjallhvít og veiðimaðurinn.