Heimsfrumsýning: Thor: The Dark World

ThorSambíóin heimsfrumsýna Marvel ofurhetjumyndina Thor: The Dark World á fimmtudaginn næsta, þann 31. október í kvikmyndahúsum um land allt, 8 dögum á undan Bandaríkjunum.

„Það er að sjálfsögðu Chris Hemsworth, Tom Hiddleston og Natalie Porman sem fara með aðalhlutverkin í þessari mögnuðu stórmynd sem var að hluta til tekin upp hér á Íslandi,“ segir í tilkynningu Sambíóanna.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Það er að sjálfsögðu Chris Hemsworth sem fer á ný með hlutverk þrumuguðsins sem í þetta sinn þarf að kljást við hinn forna, illa og valdagráðuga Malekith, en hann hefur heitið því að eyða veröld guðanna eins og hún leggur sig þannig að heimurinn verði aftur hluti af Svartálfaheimum þar sem myrkrið ríkir.

Til að berjast við þessa ógn og vernda um leið Jane Foster sem Malekith hyggst ná á sitt vald neyðist Þór til að leita til Loka og biðja hann um aðstoð, en eins og flestir vita hefur Loki ekki reynst Þór mikill vinur hingað til.

Thor 2 domestic payoffÞað er Christopher Eccleston sem fer með hlutverk Malekiths en annars snúa hér til baka allir helstu leikararnir úr fyrri myndinni, þar á meðal Natalie Portman sem Jane, Anthony Hopkins sem Óðinn og Tom Hiddleston sem hinn viðsjárverði Loki.

Aðalhlutverk: Chris Hemsworth, Natalie Portman, Tom Hiddleston, Christopher Eccleston, Anthony Hopkins, Idris Elba, Stellan Skarsgård, Benicio Del Toro og Adewale Akinnuoye-Agbaje

Leikstjórn: Alan Taylor

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Smárabíó, Bíóhöllin Akranesi, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó og Króksbíó

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Hluti myndarinnar var tekinn upp á Íslandi, í nágrenni Reykjavíkur og við Dettifoss og Skógarfoss. Nokkrir Íslendingar komu einnig beint að gerð myndarinnar og má þar nefna t.d. þá Leif B. Dagfinnsson sem er í framleiðsluhópnum, Guðna Líndal Benediktsson í sviðsmyndateyminu og þá Hauk Karlsson, Eggert Ketilsson og Jóhannes Sveinsson sem sinntu tæknibrellunum.
Stan Lee, höfundur teiknimyndasagnanna um þrumuguðinn Þór, er einn af framleiðendum Thor: The Dark World og kemur einnig fram í örhlutverki í myndinni sem strætisvagnastjóri.