Twilight slær í gegn á Ítalíu

Frumsýning lokamyndarinnar í Twilight flokknum, The Twilight Saga: Breaking Dawn – Part 2, var stærsta frumsýning ársins á Ítalíu þegar hún var frumsýnd þar í landi í gær, en 327 þúsund miðar seldust í landinu í gær.

Reyndar var myndin frumsýnd á þriðjudaginn á Ítalíu, á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Róm, en uppselt var á myndina í stærsta sal hátíðarinnar. Á hátíðinni var einnig haldið svokallað Twilight Saga Maraþon á þriðjudag og fram á miðvikudag, en þá voru allar myndirnar sýndar í röð.

Myndin var sýnd í gær á 885 bíótjöldum, og tekjur af henni námu jafnvirði 2,8 milljóna Bandaríkjadala.

Vinsælasta mynd á frumsýningardegi fyrir þessa frumsýningu var The Avengers, en 309 þúsund miðar seldust á þá mynd á frumsýningardegi hennar í apríl sl.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi á morgun, föstudag.

Skoðið stikluna úr myndinni hér að neðan: