Fésbókarmynd aftur í bíó og á DVD

Columbia Pictures tilkynntu í dag að „fésbókarmyndin“ The Social Network, væri að skríða yfir 200 milljóna dollara markið í aðsóknartekjur á heimsvísu, og að myndin væri væntanleg aftur í kvikmyndahús.

Myndin er einnig væntanleg á DVD og BluRay.

Samkvæmt tilkynningunni þá hefur myndin þénað meira en 93 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 104 milljónir utan Bandaríkjanna. 200 milljóna dala markinu verður því náð á næstu dögum.
DVD útgáfa verður síðan gefin út þann 11. janúar nk., en í þeirri útgáfu verða meira en 8 klukkutímar af aukaefni. Myndin verður einnig endursýnd í meira en 600 kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum frá og með 7. janúar nk.

Talsmaður Columbia segir: „Myndin hefur snert við áhorfendum um allan heim. Engin uppfinning er meira einkennandi fyrir tímana sem við lifum á en Facebook.“
Myndinni var vel tekið af gagnrýnendum og hefur verið að sanka að sér viðkurkenningum og verðlaunum, þar á meðal frá the National Board of Review, fyrir bestu mynd, besta leikstjóra, besta handrit og besta leikara í aðalhlutverki.
Myndin fékk einnig sex Golden Globe tilnefningar.