The Social Network hélt toppsætinu á Íslandi

Feisbúkkmyndin gengur greinilega vel ofan í Íslendinga eins og aðra. Aðra helgina í röð var The Social Network vinsælust í bíóum hér á landi og stóðu hún og íslenska unglingamyndin Órói af sér ásókn fjögurra nýrra mynda í toppsætið. Voru þær fyrir ofan teiknimyndina Legend of the Guardians, spennumynd Baltasars Kormáks, Inhale, gamanmyndina The Switch og aðra spennumynd, Takers hina ammrísku. Þessar myndir röðuðu sér skipulega í næstu fjögur sæti, en aðeins um 50.000 krónur í aðgangseyri skildu Inhale, The Switch og Takers að, þannig að baráttan var sannarlega jöfn. The Town, Brim, Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið og Despicable Me fylltu svo út í topp 10-listann.

Það er áhugavert að sjá að á topp 10-listanum eru 4 þekktar Hollywood-myndir, 3 íslenskar myndir, 2 teiknimyndir sem báðar er hægt að sjá með íslensku tali og 1 erlend mynd frá íslenskum leikstjóra. Því eru 6 af 10 vinsælustu myndum Íslands í dag með íslenska tengingu (og atvinnuskapandi hér á landi), sem er mjög óvenjulegt hlutfall. Vonandi heldur þetta bara áfram.

Hvaða mynd sáuð þið um helgina? Hvað fannst ykkur?

-Erlingur Grétar