Erfitt að vera viti sínu fjær

Margir horfa á hrollvekjuna The Shining, frá árinu 1980, nú þegar Halloween helgin fer í hönd.

Við höfum nú þegar sagt frá því hér á kvikmyndir.is að hægt er að grenna sig með því að horfa á myndina, auk þess sem við sögðum frá leyndum skilaboðum í myndinni. Það er líka margt áhugavert við gerð myndarinnar eins og sjá má af eftirfarandi samantekt úr breska blaðinu The Guardian sem blaðið vann upp úr viðtali við framleiðanda myndarinnar, Jan Harlan:

  • Stanley Kubrick leikstjóri var mjög tvístígandi um það hvort að hann ætti að gera myndina eða ekki, þar sem hrollvekjur voru ekki hans sérgrein
  • Kubrick ákvað að gera myndina eftir að Stephen King höfundur bókarinnar sem myndin er byggð á, leyfði honum að breyta sögunni. Kubrick skrifaði í kjölfarið mun margræðara handrit
  • Það sést strax að það er eitthvað skrýtið við hótelið sem fjölskyldan fer á til vetrardvalar. Það lítur út eins og krúttlegt Disney hótel að utan, og risastórir gangar og samkomusalir sem sjást í innitökunum passa engan veginn inn í þetta litla hús.
  • Stanley Kubric fór ekki sjálfur með til Oregon, til að taka útisenurnar sem teknar eru þar.
  • Alltaf þegar leikararnir eru úti, þá eru þeir í raun og veru staddir í Elstree myndverinu í London. Snjórinn var búinn til úr formalíni og salti, og þokan var fínn matarolíuúði
  • Það kom  aldrei neinn annar til greina fyrir aðalhlutverkið en Jack Nicholson. Hann þurfti ekki einu sinni að mæta í prufu.
  • Kubrick sá Shelley Duvall sem lék eiginkonuna, í annarri mynd og uppgötvaði hana þar. Hann sagðist ekki hafa viljað einblína á að hafa einhverja fallega leikkonu sem kom vel út á mynd, heldur vildi hann fá karakter leikkonu.
  • Senan fræga þar sem Jack heggur í hurðina með exi var auðveld í tökum. Það eina sem Jack þurfti að passa var að láta braka nógu mikið í viðnum þegar hann hjó, en atriðið var erfiðara fyrir Shelley, því hún þurfti að vera viti sínu fjær af hræðslu allan tímann. Stanley var stöðugt að biðja hana um að líta út fyrir að vera hræddari og hræddari.