Ný bók Stephen Kings 11/22/63 verður að Jonathan Demme bíómynd

Bandaríski leikstjórinn Jonathan Demme, þekktur fyrir myndir eins og Óskarsverðlaunamyndirnar Silence of the Lambs og Philadelphia, hefur tryggt sér réttinn til að gera kvikmynd eftir nýjustu bók hrollvekjumeistarans Stephen Kings 11/22/63.
Demme ætlar sér að leikstýra myndinni, skrifa handritið og framleiða.
Enginn dreifingaraðili er ennþá kominn inn í myndina, en Demme áætlar að hefja tökur á næsta ári, að því er Variety kvikmyndablaðið segir frá.

Bók Kings fjallar um Jake Epping, 35 ára gamlan enskukennara í menntaskóla í Maine í Bandaríkjunum, sem ferðast aftur í tímann til að reyna að koma í veg fyrir morðið á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna.

Titill bókarinnar er einmitt dagsetningin þegar Kennedy var myrtur.
Bíómyndir sem gerðar hafa verið eftir sögum Kings hafa margar hverjar slegið í gegn. Þar má nefna myndir eins og Shawshank Redemption, Green mile, Stand by me, Misery, The Shining.

Bókin sjálf kemur út 8. nóvember í Bandaríkjunum og þannig gefst mönnum smá tími til að lesa bókina áður en hún kemur í bíó.