Hin ótrúlegu 2 komin í gang

Aðdáendur teiknimyndarinnar skemmtilegu The Incredibles, eða Hin ótrúlegu, hafa lengi óskað sér þess að gerð verði framhaldsmynd, og nú sér loksins fyrir endann á biðinni.

The-Incredibles

Brad Bird, höfundur upprunalegu myndarinnar frá árinu 2004, hefur staðfest að hann sé byrjaður að vinna að nýju handriti um þessar ofurhetjur sem eru dulbúnar sem lítil og sæt fjölskylda.

Disney greindi frá því í fyrra að framhald væri í pípunum, en síðan hefur ekkert heyrst úr þeim herbúðum.

„Ég var að setjast niður til að byrja að skrifa það, þannig að við skulum sjá hvað gerist,“ sagði Bird við NPR.

Bird er mjög umhugað um hvernig allt lekur á netið núorðið: „Þetta er mjög erfitt nú á dögum þar sem allir eru með tæki á sér sem þeir geta skemmt bíómyndina þína með,“ sagði hann.

The Incredibles sló í gegn í miðasölunni á sínum tíma og þénaði 410 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim, og var valin besta teiknimyndin á Óskarsverðlaunahátíðinni 2005.

Nú er bara að vona að skriður sé að komast á myndina, en upp á síðkastið hefur Bird verið upptekinn við að leikstýra Tomorrowland fyrir Disney, sem frumsýnd verður 22. maí nk.