Grípandi túlkun á endurunninni sögu

Eins og gengur og gerist með bíóaðlaganir á vinsælum bókum (hvað þá seríum) getur það skipt heilmiklu máli upp á álit manns á myndinni að gera hvort bókin hafi verið lesin eða ekki. Þeir sem hafa lesið The Hunger Games-bókina munu sjá þessa mynd í allt öðruvísi ljósi en þeir sem hafa ekki gert það. Þegar maður horfir á mynd eftir bók líður manni eins og maður sé að sjá hana í annað sinn eftir að hafa horft á hana haugfullur einu sinni áður. Hlutirnir eru eins, en samt ekki, og þú veist nokkurn veginn hvert þetta stefnir og hvers vegna, en tengingarnar eru oft móðukenndari vegna breytinga.

Það sem skiptir mestu máli er að The Hunger Games-myndin, þrátt fyrir að vera ófullkominn, er algjör sigurvegari þegar upp er staðið, eða meistari öllu heldur. Fyrstu cirka 90 mínúturnar eru hátt í stórkostlegar á meðan síðustu 40 eru töluvert veikari, þótt hún missi beinlínis aldrei dampinn. Hinir tveir þriðjungarnir eru samt svo sterkir að það þýðir í rauninni ekki að gagnrýna smotterísgalla (eins og shaky-cam ofnotkunina) vegna þess að uppbyggingin er dásamleg, dramað gengur upp og spennan heldur manni allan tímann. Handritið er oftast snjallt og ætti hver sem er að geta séð hvað myndinni er vel leikstýrt (enda þaulreyndur – en ekkert sérstaklega virkur – fagmaður við stjórnvölinn. Hann gerði m.a. Pleasantville, sem togar alltaf í hjartarætur mínar).

Þegar byrjar að líða á lokaþriðjunginn koma fyrst helstu gallarnir í ljós. Senur byrja að endurtaka sig, og nokkrar verða frekar kjánalegar (strax kemur upp í hugann þessi með „camouflage“ förðuninni hjá Peeta í seinni helmingnum. Hún var svo heimskulega langsótt að kjálkinn á mér hrapaði í gólfið). Hristingur tökuvélarinnar byrjar líka smám saman að fara meira og meira í taugarnar á manni þegar maður sér að hann er oftast notaður til að tilkynna það að það megi ekki sjást of mikið ofbeldi í PG-13 mynd. Endirinn er líka pínu bitlaus enda þjáist hann af hinni þrautleiðinlegu „anti-climax“ veiki. Engin svaka pest, bara smá hiti. Gerist fyrir bestu myndir. En samt ekki.

Aðstandendur voru reyndar voða heppnir að hafa sjálfan bókahöfundinn með sér í liði í handritsgerðinni, eflaust til að ná skarpari fókus á því sem skiptir mestu máli. Handritinu tekst afar vel að koma öllum upplýsingum til skila á fínum hraða án þess að ryðjast inn í senur með klunnalegar exposition-útskýringar, og jafnvel þegar slíkt gerist (þegar útskýringarnar eru notaðar sem partur af sjónvarpsútsendingum) er það aldrei meðhöndlað með ónáttúrulegum eða þvinguðum hætti. Að vísu er nóg af litlum spurningum ósvaraðar, sem aðeins aðdáendur bókanna munu vita svörin við. Það er svosem ekkert slæmt að fylla stundum upp í eyðurnar sjálfur, en einstaka sinnum líður manni eins og sumt sé óljóst bara vegna þess að handritið gat ekki eytt of miklum tíma í minniháttar útskýringar. Rennslið hefði eflaust skaddast við það, en hver veit?

Sagan nær klárlega til manns þótt það sé mikil afneitun að kalla hana frumlega. Augljóslega er ekki hægt að forðast samanburð ef maður kannast vel við t.d. hina klassísku The Running Man, hina steingleymdu Series 7: The Contenders eða hina ómetanlegu Battle Royale, en The Hunger Games veit hvar styrkleikur sinn liggur og er sennilega með þeim betri allegoríum sem hafa sést undanfarið. Það er að mínu mati sanngjarnt að segja að þessi mynd sé agalega svipuð þeim sem ég taldi upp en það er ekki næg ástæða til þess að rakka hana niður.

Hver einasti leikari virðist einnig vera rétt valinn í sitt hlutverk og skilar sínu hetjulega, sem segir kannski eitthvað miðað við það að nóg af persónum er í boði. Sagan er þó alfarið sögð frá sjónarhorni Katniss Everdeen og þess vegna fær Jennifer Lawrence þyngstu byrðina. Fyrir utan það að vera tryllt falleg (og með eldheitar útlínur) hittir hún beint í mark í hlutverki Katniss og gerir myndina betri fyrir vikið. Hún tapar aldrei samúð manns og stuðning og gæti hugsanlega verið ein og athyglisverðasta kvenpersóna síðustu ára í (sci-fi) ævintýramyndum. Hún er með essin þrjú alveg á hreinu (þ.e. sterk, sjálfstæð og snjöll) og hættir hugrekkið sjaldan að renna í gegnum æðarnar á henni.



Josh Hutcherson
kemur einnig vel út og vekur þá tilfinningu að karakterinn Peeta Mellark hefði auðveldlega getað komið verr í öðrum höndum. Drengurinn hefur hingað til verið fínn en núna loksins sé ég alvöru leikara brjótast út úr honum. Peeta er svolítið ófókuseraður sem karakter með tvær hliðar en sennilega er það bara vegna þess að hann er allan tímann séður frá sjónarhorni Katniss. Mér líkaði samt ekki illa við það og gerði það sambandið þeirra óljósara, og þar af leiðandi ófyrirsjáanlegra, sem smellpassar fyrir sögu eins og þessa. Myndin stafar aldrei neitt út sem hún þarf ekki lífsnauðsynlega að gera, og þegar kemur að flestum persónum þarf áhorfandinn svolítið að átta sig á hlutunum sjálfur. Litli bróðir þrumuguðsins Þórs, Liam Hemsworth, fær líka nokkrar senur og stendur sig vel miðað við það sem hann er: uppstilling fyrir næstu myndir. Það er örlítill þefur af Twilight-sögunum í þessum ástarþríhyrningi sem er verið að byggja upp, fyrir utan það að þessar persónur eru ekki leiðinlegri en þvottasnúrur og bréfaklemmur. Það er auðvelt að skilja hrifninguna gagnvart hinni snörpu og beinhörðu Katniss, annað en ósjálfbjarga fýlupúkanum sem Bella Swan er.

Leikaravalið samanstendur af svo sérkennilegum nöfnum að maður fær þá tilfinningu að ákveðin hugsun hafi verið lögð í hvern og einn karakter. Woody Harrelson heldur áfram að vera senuþjófurinn sem hann hefur oftast verið og er að mínu mati ómögulegt að fá leið á honum. Svo er Lenny Kravitz (af öllum mönnum!) svakalega góður í mikilvægu aukahlutverki og litlu síðri eru Donald Sutherland, Stanley Tucci, Elizabeth Banks og Wes Bentley (sem tók mjög slæmar vinnuákvarðanir eftir American Beauty, þar til nú). Stelpurnar sem leika Prim og Rue eru líka fjandi góðar miðað við aldur, en ég held að hrósið fari sérstaklega til Gary Ross, sem hefur hingað til alltaf kunnað að meðhöndla leikara vel og sjá til þess að maður trúir þeim.

Ross heldur flottu flæði og byggir upp Hungurleikanna á svo spennandi hátt að maður finnur ekkert fyrir lengdinni, og þá meina ég bæði allt sem gerist á undan keppninni og meðan henni stendur. Tónlistin nær líka alveg rétta andrúmsloftinu. Hún gerir spennandi senur meira spennandi þegar þörf er á því og passar að rólegu senurnar verði aldrei of væmnar og vandræðalegar. Tónarnir finna akkúrat réttu blöndunina af þunglyndi og vonargljáa sem svífur yfir tilfinningarnar þegar hasarinn er ekki í gangi, en það er nú partur af þemanu. Ég dáðist líka að útlitshönnuninni og fannst trúðatískan vera lúðalega fyndin, og ábyggilega sá þáttur sem gerir þessa framtíðarsýn hvað mest abstrakt og truflandi. Það tekur smástund að melta þá súrrealísku sjón að sjá sköllóttu snillinganna Stanley Tucci og Toby Jones staðsetta saman í ramma með furðulegar hárkollur á meðan þeir ávarpa áhorfendur.

Ef út í ameríska aldursstimpilinn er aðeins farið (það er eiginlega nauðsynlegt) finnst mér hundfúlt að myrk dystópíusaga eins og þessi með miklu ofbeldi skuli ekki hafa verið gerð til að höfða til eldri hópa. Hún segir í hnotskurn frá ljótum veruleika þar sem unglingar eru settir á vígvöll í beinni útsendingu til að drepa hvern annan. Sagan snýst kannski ekki alfarið um ljótleikann, heldur persónuna Katniss, en ofbeldið kryddar svo sannarlega upp á sjokkið og fjörið þegar hugsað er út í þennan söguþráð. Myndin gengur auðvitað eins langt og er leyfilegt með blóðið og unglingadrápin, en miðað við grimmdina er ofbeldið oftast pínu gelt. Þú gætir misst af því ef þú blikkar. Hefði þetta verið „R-rated“ mynd hefði ég e.t.v. knúsað bíótjaldið af einskærri aðdáun og kannski hömpast líka smá. Eins og þetta sé ekki nógu hugrökk unglingamynd nú þegar, þá hefði þetta verið mun djarfari kvikmyndaframleiðsla ef hún hefði þorað að ganga alla leið. Þetta eru þó meira persónulegir draumórar frekar en gagnrýni.

Upplifunin er þess virði, án spurninga, ef upplifun skildi kalla. Ég myndi ekki hika við það að kalla The Hunger Games nokkuð áhrifaríkan rússíbana, sem hefur bæði adrenalín og tilfinningar í fullnægjandi skammti. Myndin greip mig, ég var húkkt og mig langaði strax í meira eftir lokasenuna. Þetta er athyglisverður og spennandi heimur og ljóst er að nóg eigi eftir að ske í komandi köflum. Eins og á við um nánast allt í heiminum er ýmislegt sem hefði mátt fínpússa betur, en þegar bíómynd gerir svona margt rétt er það beinhörð staðreynd að hún eigi skilið að fá skotheld meðmæli. Ég myndi nú heldur ekkert hata það ef Catching Fire verður jafngóð eða betri en þessi.


(8/10)