Tarantino staðfestir að The Hateful Eight verði gerð

DJANGO UNCHAINEDHandritshöfundurinn og leikstjórinn Quentin Tarantino staðfesti á Comic-Con ráðstefnunni, sem fór fram í San Diego í Bandaríkjunum um helgina, að kvikmyndin The Hateful Eight verði gerð.

Eins og flestum er kunnugt þá hætti Tarantino við að gera myndina eftir að handritið lak til umboðsmanna í Hollywood. Tarantino segist hafa komist að lekanum þegar umboðsmenn byrjuðu að hringja í hann og biðja um hlutverk fyrir leikara sína.

„Já, við munum gera The Hateful Eight. Við vorum ekki viss í fyrstu en þetta er ákveðið,“ sagði Tarantino á ráðstefnunni eftir að dyggur aðdáandi úr sal spurði hann spjörunum úr, en Tarantino var að kynna myndasögubók þar sem Django og Zorro eru í aðalhlutverkum.

The Hateful Eight gerist nokkrum árum á eftir borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum, þar sem fólk úr ýmsum áttum samfélagsins eru fast saman vegna veðurs.

Margir þekktir leikarar hafa verið orðaðir við myndina og má þar helst nefna Samuel L. Jackson og Kurt Russell. Sá síðarnefndi leysti frá skjóðunni í útvarpsviðtali á dögunum þar sem hann sagðist vera að undirbúa sig fyrir hlutverk í myndinni. Ef marka má Russell þá er búist við að tökur hefjist snemma á næsta ári

Tarantino höfðaði mál á grundvelli höfundarréttarbrota gegn vefsíðunni Gawker Media fyrir að dreifa handriti sínu að kvikmyndinni. Málið var fellt niður sökum þess að Gawker hýsti ekki handritið á sinni heimasíðu.