SUBMARINO fær kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2010

Danska kvikmyndin SUBMARINO hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í ár, og sló þar við meðal annars Degi Kára Pétursssyni frá Íslandi, en mynd hans, The Good Heart var tilnefnd af Íslands hálfu.

Í tilkynningu frá Norðurlandaráði segir eftirfarandi: „Í ár verða eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun Norðurlanda veitt danska kvikmyndaleikstjóranum og handritshöfundinum Thomas Vinterberg, handritshöfundinum Tobias Lindholm og framleiðandanum Morten Kaufmann fyrir kvikmyndina SUBMARINO.

Dómnefnd þessa árs skipuð þeim Anne Jerslev lektor (DK), Johanne Grönqvist ritstjóra (FI), Sif Gunnarsdóttir kvikmyndagagnrýnanda (IS), Le LD Nguyen kvikmyndagagnrýnanda (N) og Eva af Geijerstam kvikmyndagagnrýnanda (SV) rökstyður ákvörðun sína með eftirfarandi hætti:

„Submarino er óvægin en jafnframt áhrifamikil saga tveggja bræðra sem tengjast vegna örlagaríkra atburða í æsku. Myndin fjallar um bræður sem axla ábyrgð fullorðinna og um hvernig barn fær félagslegar aðstæður í arf, en einnig um von um betri framtíð. Í myndinni er fjallað um þemu eins og áföll, sekt og sættir. Submarino er einfalt en jafnframt flókið listaverk, handritið er heilsteypt og leikstjórnin stílviss. Fínleg og þétt innri bygging sem gengur upp, nálægð í leiknum og snjöll notkun hljóðs og ljóss stuðla að því að skapa þessa áleitnu mynd af lífi fólks“,“ segir í tilkynningunni.

SUBMARINO var frumsýnd í kvikmyndahúsum í Danmörku í mars og er talin ein af bestu myndum ársins af gagnrýnendum. Myndin tók þátt í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Berlín á þessu ári og hefur verið sýnd á hátíðum í London, Sao Paolo og Los Angeles. Hún hlaut gagnrýnendaverðlaun á norrænu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi og aðalverðlaun Film by Sea 2010 í Hollandi. Í desember keppir myndin um tilnefningu til evrópsku EFA verðlaunanna auk þess að vera ein af þremur myndum sem tilnefndar voru fyrir hönd Dana til að keppa um Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlenda kvikmyndina.

„Ég er afar ánægður og stoltur yfir því að hljóta kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Í Danmörku og á Norðurlöndum almennt er framleiddur fjöldi góðra kvikmynda og ég ber einnig virðingu fyrir þeim sem meta myndirnar. Þetta er mikill heiður. Ég lít ekki eingöngu á verðlaunin sem viðurkenningu fyrir okkur sem stöndum að SUBMARINO heldur fyrir danska kvikmyndagerð í heild sinni. Viðurkenningu sem staðfestir kraftinn í og nauðsyn þess að skapa og standa við bakið á danskri kvikmyndagerð á listrænum forsendum. Hvatningu til danskrar kvikmyndagerðar að halda áfram að teygja sig yfir landamæri landsins“, segir Thomas Vinterberg í tilkynningunni.

Í tilkynningunni eru einnig eftirfarandi upplýsingar um verðlaunahafana, kvikmyndina og verðlaunin sjálf:

Um verðlaunahafana þrjá:
LEIKSTJÓRI / HANDRITSHÖFUNDUR – THOMAS VINTERBERG
Thomas Vinterberg fæddist í Kaupmannahöfn 1969. Hann stundaði nám við danska kvikmyndaskólann og varð heimsþekktur 1998 fyrir kvikmyndina Veisluna sem hlaut sérstök verðlaun dómnefndar í Cannes. Fyrsta dogmamyndin er í dag skilgreind sem sígild skandínavísk kvikmynd.
Næst leikstýrði Vinterberg tveimur myndum á ensku: It’s All About Love (2003) með Sean Penn, Claire Danes og Joaquin Phoenix, og Dear Wendy (2005) með Bill Pullman, Chris Owen og Jamie Bell í aðalhlutverkum. Báðar myndirnar voru kynntar á Sundance kvikmyndahátíðinni. Árið 2007 gerði hann gamanmyndina En mand kommer hjem á dönsku.
Vinterberg hefur fyrir utan kvikmyndagerð leikstýrt tónlistarmyndböndum fyrir Metallica og Blur. Hann fékk Achievement in World Cinema verðlaunin á European Film Awards árið 2008 fyrir hlut sinn í stofnun Dogma hreyfingarinnar árið 1995.
Í mars 2010 stjórnaði Vinterberg fyrsta leikriti sínu, Das Begräbnis (Jarðarförin) í Burg leikhúsinu í Vín. Um þessar mundir vinnur hann að nýrri kvikmynd í fullri lengd sem hann skrifar með Tobias Lindholm.

HÖFUNDUR – TOBIAS LINDHOLM
Tobias Lindholm útskrifaðist sem handritshöfundur úr danska Kvikmyndaskólanum árið 2007. Hann skrifaði fjölmarga þætti í þáttaröðum DR Sommer árið 2007 og Borgen (2009/2010).
Submarino er fyrsta kvikmyndahandrit hans í fullri lengd. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd var fangelsismyndin R, sem hann skrifaði og leikstýrði ásamt Michael Noer og vann hún til fyrstu verðlauna, Dragon Award, fyrir bestu norrænu kvikmyndina og FIPRESCI verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg árið 2010. Um þessar mundir vinnur Lindholm að nýju handriti með Vinterberg og nýrri kvikmynd með Noer.

FRAMLEIÐANDI- MORTEN KAUFMANN
Morten Kaufmann útskrifaðist úr danska Kvikmyndaskólanum árið 1995 og réði sig skömmu seinna til eins metnaðarfyllsta kvikmyndafyrirtækis í Danmörku, Nimbus Film, þar sem hann framleiddi fjölmargar stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd eins og Kira’s Reason, Angels in Fast Motion, Prague eftir Ole Christian Madsen, Mifune eftir Søren Kragh Jacobsen,Miracle eftir Natasha Arthy, Dark Horse eftir Dag Kára og When a Man Comes Home eftir Thomas Vinterberg. Hann hefur starfað við fjölmargar aðrar myndir eins og Veisluna og It’s All About Love eftir Thomas Vinterberg. Árið 2009 stofnaði hann kvikmyndafyrirtækið Cacao Film.

Um kvikmyndina:
Submarino er saga tveggja bræðra, sem báðir kljást við sorglegan atburð í æsku og hvorugur vill sleppa takinu af. Nick (Jakob Cedergren) býr á gistiheimili í norðvestur hluta Kaupmannahafnar. Hann er reiður, lyftir lóðum og drekkur sterkan bjór. Maður sem maður vill ekki vera fyrir. Yngri bróði Nick (Peter Plaugborg) er einstæður faðir með 6 ára son sem hann reynir að tryggja gott uppeldi, á milli þess sem hann leitar að næsta skammti af heróíni. Dag einn ákveður Nick að heimsækja bróðir sinn í vonum að geta rofið þann vítahring sem einkennt hefur líf þeirra.

Um verðlaunin:
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt norrænni kvikmynd af listrænum gæðum og skiptast jafnt milli leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda myndarinnar, sem undirstrikar að kvikmyndir sem listgrein eru afurð náins samstarfs milli þessara þriggja aðila. Verðlaunin sem fyrst voru veitt í tengslum við 50 ára afmæli ráðsins árið 2002, nema 350.000 dönskum krónum og verða afhent verðlaunahöfunum þremur á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík, miðvikudaginn 3. nóvember.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein af mörgum verðlaunum Norðurlandaráðs, en önnur verðlaun eru veitt fyrir bókmenntir, tónlist og náttúru- og umhverfisvernd. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga Norðurlandabúa á norrænum á bókmenntum, tungumálum, tónlist og kvikmyndum.

Áður haf kvikmyndaverðlaunin verið veitt Aki Kaurismäki fyrir MAÐUR ÁN FORTÍÐAR (2002), Per Fly (2005) fyrir MORÐIÐ, Josef Fares (2006) fyrir ZOZO, Peter Schønau Fog (2007) fyrir LISTIN AÐ GRÁTA Í KÓR, Roy Andersson fyrir ÞIÐ SEM LIFIÐ (2008) og Lars von Trier fyrir ANTICHRIST (2009).