Sony og Fincher þrasa um lengd

Hingað til hefur samstarf Davids Fincher og Sony gengið eins og í sögu á framleiðslu myndarinnar The Girl with the Dragon Tattoo, sem auðvitað er byggð á Stieg Larsson-bókinni Karlar sem hata konur.

Nú á dögunum hefur komið upp smá vesen varðandi lengd myndarinnar. Samkvæmt heimildum er sakamálaþriller Finchers hátt í þrír klukkutímar að lengd um þessar mundir og segist leikstjórinn bara vera nokkuð ánægður með það (upprunalega myndin var hálftíma styttri).

Sony segir að þessi lengd komi ekki til greina og heimta þeir að hann stytti myndina niður í hámark 140 mínútur (semsagt tveir tímar og tuttugu mín. MEÐ kreditlista).

Ef þessar deilur stigmagnast þykir ólíklegt að Fincher klári hinar tvær myndirnar í þríleik Larssons, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi.

Verður spennandi að sjá hvernig þetta leysist.

Hvort finnst þér að Fincher ætti að standa við sitt eða stytta söguna niður að ósk stúdíósins? Við skulum ekki gleyma því að snillingurinn lenti í svipuðum deilum við Paramount þegar hann gerði Benjamin Button, og að lokum þurfti hann að skafa hálftíma af þeirri lengd.