Testósterónið lekur af Expendables 2 stiklunni

Fyrsta sýnishornið úr The Expendables 2 er dottið inn og staðfestir það sem við vissum öll, enn fleiri testósteronboltar en síðast munu hittast og skjóta enn fleiri vonda kalla með enn stærri skotvopnum en síðast. Í þetta skipti hefur Sylvester Stallone fengið hasarhetjur á borð við Jean-Claude Van Damme og Chuck Norris með í hópinn, sem samanstendur annars af Jason Statham, Jet Li, Dolph Lundgren, Terry Crews og Randy Couture ásamt auðvitað Stallone sjálfum. Einnig bætast við Liam Hemsworth, Scott Adkins, tennisleikarinn Novak Djokovic og Yu Nan (það er komin kona í hópinn!). Þá verða þeir Bruce Willis og Arnold Schwarzenegger í aðeins veigameiri hlutverkum en síðast. Hinsvegar má geta þess að Mickey Rourke var ófáanlegur aftur. Leikstjóri í þetta skiptið er Simon West (Con Air), en Stallone kom að gerð handritsins. Það er helst að vanti Steven Seagal og Danny Trejo en við verðum bara að vona að það takist að lokka þá inn í þriðju myndina.

Smellið á YouTube rammann til að skoða stikluna. Segið svo hvað ykkur finnst.

Þessi stikla segir ekki mikið meira en nafnarununa sem ég taldi upp hér að ofan, en það ætti að vera meira en nóg til að fá heitustu hasarfíklana til að sleikja út undan. Undirritaður telst víst ekki til þess hóps. Ég hafði mildilega gaman af fyrri myndinni en þótti hún ekki standa undir því loforði að vera hasarmynd áratugarins. Þó að leikhópurinn sem heild hafi verið hæpaður upp var skjátíma þeirra ekki dreift neitt sérstaklega vel, og aðeins nokkrar aðalpersónur fengu einhver bitastæð hlutverk. En ég hef trú á að Stallone hafi tekið rétta ákvörðun með að láta leikstjórastólinn í hendur West, og finnst leikhópurinn hafa batnað frá því síðast, þannig að þetta ætti að verða fínasta skemmtun. Vonandi tekst betur að finna eitthvað að gera fyrir alla þessa sveittu karlmenn en síðast.