Rannsóknarlögreglu maðurinn og eftirlit

Öll þekkjum við fígúru rannsóknarlögreglumannsins í kvikmyndum og sjónvarpi, það eina sem þarf er rykfrakki og kannski hattur og/eða sögumannsrödd. Þessari grein er ætlað að varpa ljósi á þessa fígúru, hvernig við skynjum hana og af hverju, en einnig að kynna nýja hlið á hvað persónan gæti táknað.

Til þess að ná utan um mikilvægi og merkingu rannsóknarlögreglumannsins í kvikmyndamiðlinum er nauðsynlegt að líta sem snöggvast aftur til sögu samtímavæðingar. Stórborgarvæðingin á 19. öld opnaði nýja tegund valds; nýir framleiðsluhættir sköpuðu atvinnu og mannfjöldinn var nauðsynlegur til að knýja iðnaðinn og framleiðsluna. Hringrás myndaðist og hjól kapítalismans voru byrjuð að snúast. Þessar sögulegu forsendur kölluðu á eftirlitssamfélag nútímans. Vegna hugmynda um óreiðu, syndir og hættu í nýju dystópísku stórborginni varð rannsóknarlögreglumaðurinn lífseig táknmynd um baráttuna gegn stjórnleysi borgarinnar. Hann er ekki í einkennisbúning heldur klæðir sig eins og almennur borgari, hann fylgist með öllu, skráir allt niður … og hann getur verið hver sem er. Þess vegna er „eftirlitssamfélag“ lykilhugtak þegar fjallað er um rannsóknarlögreglumanninn.

Þekktasta birtingarmynd hans er einmitt Sherlock Holmes sem er meistari dulargerva; eitthvað sem var lögð töluverð áhersla á í nýjustu myndunum um kappann.

Aðrar þekktar birtingarmyndir fígúrunnar í kvikmyndum væru til dæmis Harrison Ford í Blade Runner, Humphrey Bogard í The Maltese Falcon og jafnvel Christian Bale í The Dark Knight. Fígúran birtist fyrst og fremst í rökkurmyndunum sígildu (film-noir) og þá einnig í nýrökkri (neo-noir) og mörgum samtíma-glæpamyndum, en einnig í búningadrömum og paródíum.

Það sem fígúran táknar hverju sinni er ef til vill jafn misjafnt og myndirnar eru margar, en það má samt sem áður finna rauðan þráð: persónan táknar nefnilega alltaf einhvers konar form af eftirlitssamfélaginu. Áður en haldið er áfram er því réttast að fara ofurfljótt yfir helstu kenninguna um eðli eftirlitssamfélagsins; en það er myndlíkingin um alsæisbygginguna. Sú myndlíking er fræg meðal fræðimanna, hún gengur í stuttu máli út á það að ímyndað fangelsi sé byggt í hring og í miðjunni stendur turn. Úr turninum sést í alla klefana, en ljósið í turninum sjálfum er slökkt og því sést ekki inn í hann út frá fangaklefunum. Fangarnir vita því ekki hvenær fylgst er með þeim (turninn gæti allt eins verið tómur) og því hegða þeir sér stöðugt vel.

Tilgangurinn með myndlíkingunni er að sýna fram á að stofnanavaldið þurfi aðeins að koma vitneskjunni um eftirlit inn hjá þegnunum -og þar með óttanum- og þá hegða allir sér samkvæmt reglunum. Það sem hefur svo bæst við ferlið við tilkomu kvikmyndarinnar er að hún persónugerir turninn, og þar með höfum við komist að óhugnanlegum kjarna rannsóknarlögreglufígúrunar!

Í hinum klassísku Raymond Chandler rökkurskáldsögum var karakterinn iðulega ráðinn sem einkaspæjari af tálkvendinu. Peter Cheney er einnig lykilhöfundur rökkurskáldsagna, rannsóknarlögreglumaðurinn hans var naglinn Lemmy Caution sem gat af sér margar formúlumyndir. Í Alphaville, einu frægasta verki kvikmyndagúrúsins Jean-Luc Godard, er persónu Lemmy Caution snúið kaldhæðnislega við; hann verður boðberi frelsis og einstaklingsvitundar í tæknikratísku eftirlitssamfélagi.

Hægt er að ná í endalaus dæmi um virkni persónunnar, en það sem samtímaáhorfendur væru ef til vill helst sammála um hvað þessa persónusköpun varðar, er að þessi karakter er alltaf alveg endalaust töff. Hann er harður, tilfinningalaus, vopnaður og karlmannlegur. Glæponarnir óttast hann, tálkvendin vilja hann; hann er í stuttu máli sagt andhetja almúgans.

En áttum við okkur á hvað hann táknar? Harrison Ford í Blade Runner er vafalaust talinn eitursvalur af flestum kvikmyndaáhorfendum; en karakterinn starfar fyrir kapítalískt stórfyrirtæki og gegn lítilmagnanum. Hann notar tæknilega og tilfinningasnauða rökvísi til að sinna eftirlitshlutverki sínu en samt er hann hetja myndarinnar. Eftirlíkingarnar (e. replicants) í myndinni eru strokuþrælar að berjast fyrir lífi sínu; hann er hausaveiðari sem skýtur fyrst og spyr svo.

Þessi örstutta kynning á þessari lífseigu kvikmyndapersónu er sem sagt til þess ætluð að vara áhorfendur við notkun á hefðinni. Persóna rannsóknarlögreglumannsins er orðin að það mikilli erkitýpu að hún er ætíð séð sem hetja almúgans, jafnvel þegar hún er óvinur almúgans. Eins og minnst var á áður gengur rannsóknarlögreglumaðurinn ekki um í einkennisbúningi og gæti því verið hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er. Ætti það að kalla fram öryggistilfinningu? Eða ætti það frekar að kalla fram ótta?
Ef sjálf persónugerving eftirlitsturnsins, sem kynntur var hér áður, er séð sem hetja almennings er þá almenningur ekki að gefa leyfi fyrir eftirlit? Ætti rannsóknarlögreglumaðurinn ef til vill að vera séður sem skúrkur en ekki hetja? Í það minnsta ætti hugmyndin að vera til staðar.