Joker í Dark Knight Rises?

Eins og flestir vita var ætlun Christopher Nolan að The Joker, illmennið úr The Dark Knight, myndi snúa aftur í þriðju og síðustu mynd hans í Batman seríunni víðfrægu. En leikarinn Heath Ledger, sem hlaut meðal annars Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á geðveika trúðinum, lést rétt eftir að tökum á The Dark Knight lauk og hefur Nolan síðan haldið því fram að hann karakterinn muni ekki snúa aftur.

En nú heldur vefsíðan ShowBizSpy því fram að Nolan hafi fundið leið til að ljúka sögunni um Joker í The Dark Knight Rises. Samkvæmt ónefndum heimildum síðunnar mun Nolan notast við áður óséð atriði úr The Dark Knight í bland við tölvubrellur til að leyfa Heath Ledger að ljúka við hlutverkið endanlega. Heimildarmaður ShowBizSpy segir, „Chris [Nolan] ætlar að nota ónotuð atriði frá Heath og CGI-brellum til að vekja Jokerinn til lífsins. Hann vill hafa tengingu á milli mynda og nota The Dark Knight Rises til að heiðra minningu Heaths og túlkun hans á karakternum.“

Þetta eru að sjálfsögðu sögusagnir og er að engu leyti staðfest, en heimildarmaðurinn segir að lokum, „Það yrði bara eitt, mjög stutt, atriði í myndinni og yrði að sjálfsögðu aðeins notað með leyfi fjölskyldu Heath.“

– Bjarki Dagur