Bond fær að koma til Kína á undan Hobbita

Risamyndin Skyfall, nýjasta James Bond myndin, verður frumsýnd þann 21. janúar í Kína, en myndin var frumsýnd í Bretlandi og hér á Íslandi í október sl. Þetta segir heimildarmaður vefmiðilsins The Wrap í Kína.

Ef Skyfall á að ná því að þéna 1 milljarð Bandaríkjadala í alþjóðlegri miðasölu, fyrst Bond mynda, þá er sýning myndarinnar í Kína algjörlega nauðsynleg.

Þessi dagsetning þýðir að Bond mun verða frumsýndur á undan Hobbitanum, en búist er við að The Hobbit An Unexpected Journey verði frumsýnd í Kína í febrúar.

Eins og við höfum sagt frá áður hér á síðunni þá reyna opinberir aðilar í Kína að vernda innlenda kvikmyndaiðnaðinn í landinu, og stundum setja þeir stórar bandarískar myndir á dagskrá samtímis, til að aðsókn á myndirnar verði minni en ella, að því er segir í TheWrap.

Sem dæmi þá fengu stórmyndirnar The Dark Knight Rises og The Amazing Spider-Man sama frumsýningardag síðasta sumar, eða 27. ágúst, sem kom niður á aðsókn á báðar myndirnar þar í landi.

Samt sem áður varð Kína aðsóknarmesta land myndanna beggja utan Bandaríkjanna.

Skyfall er aðsóknarmesta Jamaes Bond mynd allra tíma og hefur þénað 953 milljónir Bandaríkjadala  síðan hún var frumsýnd 26. október sl. Myndin er einnig orðin aðsóknarmesta bíómynd í Bretlandi frá upphafi með 158 milljónir dala í tekjur.